Ríkisstjórnin gerir ekkert með vilja Alþingis
„Á lista ríkisstjórnarinnar yfir mál sem hún ætlar að leggja fram í vetur má finna stórfrétt, en reyndar er fréttin fólgin í því hvað er ekki á lista ríkisstjórnarinnar. Fyrir 16 mánuðum samþykkti Alþingi þingmál sem ég lagði fram ásamt 15 öðrum þingmönnum, um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ólíkt flestum þingmannamálum var þetta mál samþykkt og var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestinguna. Til viðbótar átti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp á Alþingi sem fæli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það er eftir einungis tvo mánuði. Hins vegar er ekkert slíkt frumvarp á málaskrá ríkisstjórnarinnar. Af hverju ekki, hæstvirtur forsætisráðherra? Vilji þingsins liggur alveg ljós fyrir og ráðherrar eiga að framfylgja vilja þingsins. Þeir eru framkvæmdarvald. Ráðherrar geta ekki valið og hafnað þingsályktunum eftir hentugleika,“ þetta sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, á Alþingi í dag og beindi orðum sínum að Katrínu Jakobsdóttur.
„Ég trúði satt best að segja ekki mínum eigin augum þegar ég las málaskrá ríkisstjórnarinnar. Með lögfestingunni yrði Ísland eitt fyrsta landið í heimi til að lögfesta þennan alþjóðasamning. Það er ekki oft sem við getum sagt það í þessum sal,“ sagði Ágúst Ólafur. „Alþingi hefur ákveðið að taka þetta skref. En af hverju ekki ríkisstjórnin? Hvar er frumvarpið, hæstvirtur forsætisráðherra? Eru þetta ekki einfaldlega mistök sem hæstvirtan forsætisráðherra mun leiðrétta hér og nú?“
Katrín Jakobsdóttir átti ekki góða stund í ræðustól. Henni var svarafátt.
„Ég þekki það ekki alveg og verð bara að viðurkenna það hér. En ég skal með gleði taka þetta upp við dómsmálaráðherra og kanna það hvar vinnan stendur,“ sagði Katrín og hét því að ýta við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
Þetta var ekki góð umræða fyrir ríkisstjórnina.