Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, skrifar í nýjasta Lögmannablaðið grein um skipan dómara í Landsrétt. Reimar er gagnrýninn á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra sem og Alþingi.
Reimar skrifar:
„Traust á dómstólum er forsenda þess að niðurstöður þeirra í viðkvæmum deilumálum séu viðurkenndar af almenningi. Með því að láta val dómara ráðast af hæfni fremur en geðþótta er skapaður grundvöllur fyrir slíku trausti.
Núverandi fyrirkomulag skipunar dómara er ófullkomið, eins og önnur mannanna verk. Í maí 2015 benti laganefnd Lögmannafélagsins ráðuneytinu á að skynsamlegt væri að fjölga í dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda og bæta við fulltrúum með breiðari bakgrunn. Eins benti nefndin á að starfsreglur nefndarinnar legðu um of áherslu á fjölbreytta starfsreynslu og málflytjendur með langa og farsæla reynslu nytu ekki sannmælis.
Ráðherra lét kyrrt liggja áður en embætti landsréttardómara voru auglýst laus til umsóknar. Ráðherra hlýtur því að hafa álitið núverandi skipun og fyrri starfshætti dómanefndar viðunandi.
Umsögn dómnefndar um umsækjendur var ánægjuleg fyrir þær sakir að fjöldi lögmanna var talinn í hópi hinna hæfustu. Umsögnin sýndi því þannig skilning að lögmannsreynsla er heppilegur undirbúningur fyrir dómarastörf, enda þekkt að vandaður málflutningur er uppistaða góðrar dómsúrlausnar.
Umsögn dómnefndar var vitaskuld ekki fullkomin. Miðað við fyrri störf nefndarinnar átti aðferðafræðin þó ekki að koma verulega á óvart.
Ráðherra kaus að ganga gegn umsögn dómnefndarinnar. Sérstakar reglur bundu hendur ráðherra þegar hann gerði það. Ráðherra varð samt sem áður að velja hæfasta umsækjandann og byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum og fullnægjandi rannsókn.
Ráðherra mistókst. Sjónarmið ráðherra var að gefa dómarareynslu aukið vægi. Niðurstöðu ráðherra skorti rökrétt samhengi við það sjónarmið.
Ráðherra var skylt að leggja tillögur sínar um skipun landsréttardómara fyrir Alþingi til samþykktar. Jafnframt var ráðherra skylt að afla heimildar Alþingis til að víkja frá umsögn dómnefndarinnar. Í þessu fyrirkomulagi fólst ekki heimild ráðherra til að beita geðþótta við tillögugerðina. Þvert á móti fólst í þessu sérstök vörn gegn geðþóttaákvörðun hans.
Alþingi virðist hafa skort skilning á þessu. Formenn tveggja stjórnarflokka upplýstu til dæmis eftir afgreiðslu þingsins að þeirra þingflokkar hafi tilkynnt ráðherra þegar umsögnin lá fyrir að niðurstaða nefndarinnar „færi ekki í gegn.“ Áður yrði að leiðrétta „kynjahalla.“
Þessi skilyrðislausa krafa þingflokkanna stenst illa lög. Notkun kynjasjónarmiða til að skáka út hæfari umsækjendum er nefnilega andstæð lögum og reyndar einnig stjórnarskrá. Því gat aldrei komið til álita að hafna niðurstöðu nefndarinnar á þessum forsendum nema fyrir lægi vönduð rannsókn sem staðfesti að til staðar væru jafnhæfir umsækjendur af mismunandi kyni.
Eftir að ráðherra var gerður afturreka virðist hann enga tilraun hafa gert til að framkvæma rannsókn sem þessa í þágu kynjasjónarmiða. Ekki var heldur augljóst hvernig slík rannsókn gat leitt til þeirrar niðurstöðu sem þingflokkarnir
kröfðust. Næstu tvær konur á lista voru þannig í 18. og 19. sæti eða talsvert fyrir neðan síðustu tvo karlana sem dómnefndin taldi hæfasta, en þeir voru í 12. og 14. sæti.
Sérkennilegt er að þessi afskipti stjórnarflokkanna tveggja af framsetningu listans hafi ekki komið fram við umræður á Alþingi. Í nefndaráliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er þess í stað lögð áhersla á að Alþingi hafi ekki frumkvæði að hvernig ráðherra beitir tillöguvaldi sínu. Alþingi hafi aðeins „eftirlit“ með lögmæti vinnubragða og tillögugerðar ráðherra.
Fyrirfram afskipti stjórnarflokkanna af tillögugerð ráðherra samrýmast vart slíku eftirliti. Þessu hljóta þeir þingmenn sem um teflir að hafa gert sér grein fyrir. Með því að ákveða fyrirfram að málið „færi ekki í gegn“ hafa þeir því gerst berir að tvískinnungi og virðingarleysi fyrir vandaðri stjórnsýslu, réttaröryggi og sjálfstæði dómstóla.
Öll þessi atburðarrás er til þess fallin að vekja þá skaðlegu tilfinningu meðal almennings að eitthvað annað en hæfni hafi ráðið vali dómara. Sérstaklega er þetta óheppilegt fyrir þær sakir að mikilvægt var að Landsréttur nyti strax í upphafi starfa þess trausts sem hefði leitt af víðtækri sátt um skipun hans.
Þeir sem starfa í réttarkerfinu verða nú að leitast við að láta þetta ekki spilla þeirri ánægju sem tengist stofnun Landsréttar. Mikilvægt er að vinna ötullega að því að lágmarka þann skaða sem orðinn er svo nýi dómstóllinn fái almennilega viðspyrnu þegar hann tekur til starfa og að dómarar þar gjaldi sem minnst fyrir þá annmarka sem urðu við skipun þeirra.
Fyrir dyrum stendur að skipa átta nýja héraðsdómara og mikilvægt er að ráðherra og meirihluti Alþingis bregðist við þegar í stað til að vinna aftur tiltrú almennings. Til að svo megi verða þarf að ráðast tafarlaust í aðgerðir sem um ríkir víðtæk sátt.“