- Advertisement -

Ráðherra beiti sér gegn launaþjófnaði

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ég og Agnieszka Ewa Ziółkowska, varaformaður Eflingar, höfum birt opið bréf til fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, Ásmundar Einars Daðasonar. Við viljum með því reyna að ná til hans í þeirri von að hann og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn standi við það loforð sem okkur í Eflingu var gefið við undirritun Lífskjarasamningsins, um að loksins yrði ráðist í uppræta þá skömm sem launaþjófnaður er og að sektarheimild yrði innleidd.

Eins og við segjum í bréfinu er umfang vandans gríðarlegt. Ég gerði mér enga grein fyrir því hversu stórt það er fyrr en ég hóf störf sem formaður Eflingar. Þá áttaði ég mig á því að við værum að takast á við grafalvarlegan kerfisbundinn vanda og að fyrir fullt af aðfluttu verkafólki væri það einfaldlega partur af því að vinna á Íslandi að verða fyrir launaþjófnaði. Agnieszka sagði mér t.d. frá því að hún hefði upplifað launaþjófnað í eiginlega öllum þeim störfum sem hún hefði unnið við hér. Efling sendir út kröfur fyrir hönd félagsfólks fyrir mörg hundruð milljónir á ári. Á fjórum árum var meira en milljarði stolið af Eflingar-félögum. Og meðal-upphæð kröfu er hálf milljón króna, sem er gríðarstór upphæð í lífi þeirra sem hafa  lítið sem ekkert á milli handanna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég vona af öllu hjarta að stjórnvöld standi við orð sín. Það er þeim bókstaflega að kostnaðarlausu. Samtök atvinnulífsins hafa staðið gegn því að hægt væri að ganga frá þessu máli. En Samtök atvinnulífsins eru ekki lýðræðislega kjörin stjórnvöld á þessu landi, þó að svo virðist því miður vera að þau telji völd sín ógnarmikil og komist vissulega upp með næstum hvað sem er. Ásmundur Einar er aftur á móti lýðræðislega kjörinn fulltrúi, ráðherra á Alþingi Íslendinga. Hann hlýtur að sjá sóma sinn í að vilja uppræta svo alvarlegt vandamál. 

Okkur var gefið loforð. Við munum aldrei sætta okkur við annað en að við það verði staðið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: