Sprengisandur Meðal þess sem kom fram í viðtali við Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra, í Sprengisandi í morgun, var hvort til greina komi að takmarka hversu margir ferðamenn geti komið á vinsæla og viðkoma ferðamannastaði samtímis, að tekin verði upp aðgangsstýring.
„Það er hugsanlegt. Það getum við og það er ekkert flókið. Við getum dreift álagi ferðamanna með aðgangsstýringu. Við erum að vinna að því,“ sagði Ragnheiður Elín.
Hún sagði þetta vera eitt af þeim verkefnum sem eru á borði stjórnstöðvar ferðamála.
Trúlega verður komin aðgangsstýring á einhverja staði strax næsta sumar.
„Við lærum af öðrum þjóðum. Ég tek Nýja-Sjáland sem dæmi. Þar er vinsæl gönguleið, sem má líkja við Laugaveginn. Þar þarf að panta tíma, ekki ósvipað og þegar fólk fer í golf. Það er ekki óhugsandi að við setjum þannig fyrirkomulag á, á þeim stöðum sem við erum hrædd um að náttúran, og ekki síður upplifun ferðamannsins, skaðist vegna ofmikilar umferðar.“
Gangi þetta eftir verða settar strangar reglur um að göngufólk haldi sig á merktum gönguleiðum, hendi ekki rusli og svo framvegis.
Ragnheiður Elín sagði mörg viðfangsefnanna vera ný af nálinni, vegna aukins fjölda ferðamanna. Hún sagði aðgansstýringu hafa verið rædda síðasta sumar en þá hafi verið oóvíst hver ætti að annast stýringuna. „Er það sveitarfélagið, landvörðurinn. Þetta erum við að skilgreina núna.“