Ráðamaðurinn með steinhjartað
- hver er hann? Er það Bjarni Benediktsson sem Inga Sæland skrifar um en nefnir ekki á nafn?
„Ég spyr mig: hvernig er það steinhjarta ráðamanns sem ekki tekur tillit til bágstaddra bræðra sinna? Hvernig getur nokkur verið svo grimmur að bjóða sig til starfa fyrir alla, á sama tíma og viðkomandi veit að hann er hagsmunagæsluaðili elítunnar.“
Hér talar Inga Sæland talar undir rós. Og þó, ekki koma margir til greina sem maðurinn með steinhjartað. Öll spjót beinast að Bjarna Benediktssyni.
„Það má leggja almannafé í snobb og glæsiveislur sem standast enga skoðun. Þegar hins vegar kemur að bræðrum okkar og systrum er sparibaukurinn tómur og ekkert fé til ráðstöfunar fyrir þau. Það er ekki að furða þótt hellist yfir mann vanmáttur og depurð.“
„Ég velti því fyrir mér hvern einasta dag hvernig ég mögulega geti komið því réttlæti á sem ég boða og berst fyrir. Hvernig ég geti höfðað til þingmanna annarra flokka sem allir boðuðu bót og betrun í kosningabaráttunni fyrir tæpu ári. Já þeir vildu leiðrétta bág kjör, hjálpa börnunum okkar út úr fátækt, hlúa að öldruðum og öryrkjum.“
Grátandi umvafin pólitískum klækjarefum
„Ég grét með þeim í beinni útsendingu daginn fyrir kjördag, vitandi að ég væri umvafin pólitískum klækjarefum sem flestir meintu lítið sem ekkert af því sem þeir voru að segja. Ég bað um stuðning ykkar svo ég mætti komast að öflugasta ræðupúlti landsins og þið sýnduð mér ómetanlegt traust, stuðning og velvild. Þið tókuð nýstofnaðan Flokk fólksins í fangið og komuð honum á þing.“
„Hvernig getur nokkur verið svo grimmur?“
„Það er í raun með ólíkindum að einhverjir skuli hafa verið settir út í kuldann ef mið er tekið af öllum fagurgalanum um frábæra stöðu þjóðarbúsins. Síðast í dag sendi mér fátækur faðir neyðarkall og spurði hvort ég vissi um góðhjartaða manneskju sem gæti gefið fjölskyldunni hans að borða. „Ég spyr mig: hvernig er það steinhjarta ráðamanns sem ekki tekur tillit til bágstaddra bræðra sinna? Hvernig getur nokkur verið svo grimmur að bjóða sig til starfa fyrir alla, á sama tíma og viðkomandi veit að hann er hagsmunagæsluaðili elítunnar.““
Manngerðri fátæktargildru stjórnvalda
Inga skrifar einnig um Flokk fólksins, flokkinn sinn.
„Flokkur fólksins vill hjálpa fólki út úr manngerðri fátæktargildru stjórnvalda. Afnema skerðingar á launatekjur eldri borgara og koma lágmarksframfærslu upp í 300 þúsund krónur á mánuði, skatta- og skerðingalaust. Afnema okurvexti og mannfjandsamlega verðtryggingu sem hefur lagt á heimilin um 115 milljarða króna á sl. fimm árum. Hættið að sækja í vöndinn, það er annað og svo miklu meira og betra í boði.“
Grein Ingu birtist í Mogganum í dag. Hér er greinin ekki orðrétt.