Fréttir

Ráða ráðherrar öllu?

By Miðjan

November 28, 2018

Katrín Jakobsdóttir fyrirskipaði bankaráði Seðlabankans að funda með Þorsteini Má Baldvinssyni og hans sveit í Samherja. Við vitum að Seðlabankinn varð undir í dómsmáli gegn Samherja. En hvar liggja valdmörkin?

Katrín er ráðherra Seðlabankans. Það fer ekkert á milli mála. En hvar liggja valdmörkin? Er Seðlabankinn sjálfstæður eða ekki? Eða ræður ráðherrann Seðlabankanum, þegar það hentar?

Getur ráðherra hringt í stjórn Landsvirkjunar og sagt henni fyrir verkum? Getur ráðherra hringt í Landhelgisgæsluna, lögregluna eða dómstóla og sagt hvað eigi að gera og hvenær? Eða getur samgönguráðherra hringt í forstjóra Vegagerðarinnar og gefið út fyrirskipanir um hvar beri að gera hvað?

Er ekki verið að fara inn á stórhættulegar brautir ef ríkisstofnunum er stýrt frá stjórnarráði Íslands?

Ofan á allt fékk bankaráðið frest til 7. desember til skila skýrslu um málið. Það var Katrín Jakobsdóttir sem fyrirskipaði og gaf frestinn.