Sprengisandur „Um langa hríð hafa fagfólk, Landgræðsla ríkisins og fleiri bent á að nauðsynlegt sé að friða ákveðin svæði fyrir búfjárbeit, ekki síst auðnir, rofsvæði og hálendissvæði þar sem framleiðslugeta gróðurs er ákaflega takmörkuð. Kjötframleiðsla á slíkum svæðum hefur eitt stærsta vistspor sem um getur og verður ekki talin annað en rányrkja. Slíkir búskaparhættir eru eigi að síður styrktir af skattfé þjóðarinnar og augljóst að því þarf að linna,“ byrjar Ólafur Arnalds, prófessor við Landbnúnaðarháskóla Íslands, í Fréttablaðinu í dag.
Tilefni greinarinnar er viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson landbúnaðarráðherra í Sprengisandi síðastliðinn sunnudag. Þar var vitnað í fyrri grein Ólafs þar sem kom fram að sauðfé er meðal annars beitt á mjög viðkvæm svæði með þeim afleiðingum að þar skiljum við eftir okkur sennilega stærri vistspor, við kjörtframleiðslu, en finnst annars á jörðinni.
„Sigurjón endaði mál sitt þannig: „Það er enginn geislabaugur yfir okkur?“. Ráðherrann svaraði á þá leið að þeir sem „vinna landinu til góða séu sauðfjárbændur. Þeir leggja ótrúlega mikið á sig.“ Sigurjón: „Og það væri enn betra ef Landgræðslan bara væri ekki að ybba gogg?“ Ráðherra: „Nei, ekki það. Auðvitað þarf hún að koma fram með sín sjónarmið, en hún verður bara að passa sig á að setja þau frammeð eðlilegum hætti“. Er málum virkilega svo komið að ráðherrar setja niður við ríkistofnanir í útvarpi fyrir að gegna hlutverki sínu? Satt best að segja minna þessi efnistök óþyrmilega á tilraunir íhaldssamra þingmanna og olíuhagsmunaðila í Bandaríkjunum til að þagga niður í Lofslagsstofnun og Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NOVA og NASA) því þessi öfl trúa ekki að loftslag jarðar sé að breytast af mannavöldum. Á ráðherra að vera talsmaður hagsmunasamtaka? Væri ekki nær að ráðherrann stigi fram og viðurkenndi að við vanda væri að etja, svo menn gætu sest saman undir árar og leitað lausna? Árásir hagsmunasamtaka og ráðherra á Landgræðslu ríkisins eru ómaklegar,“ skrifar Ólafur.
„ Í viðtalinu var ýmislegt sem túlka má sem svo að ráðherrann telji ekki að sum svæði landsins þurfi að njóta beitarfriðunar. Og hann telur að landið sé að gróa upp síðan 2004 vegna betra veðurfars, fækkunar sauðfjár og betra beitarskipulags.“
Og að lokum segir prófessorinn: „Landið grær þar sem dregið hefur verið úr beitarálagi, land friðað fyrir beit eða grætt upp, en annars staðar hefur uppskera jafnvel minnkað á þessu tímabili. Víða er land í góðu ástandi, en annars staðar á það ekki við og það er nauðsynlegt að skilja þar á milli. Afneitun á vanda er ekki rétt leið.“