Má þar nefna aðför að starfsemi sjálfstætt starfandi lækna, deilur um fjármögnun hjúkrunarheimila…
„Þótt flestir telji að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi komist vel frá sínu starfi þá er staðreynd að sumar aðrar konur í ríkisstjórn hennar hafa lent undir smásjá fjölmiðla vegna aðgerða sinna í málum sem aðallega tengjast dóms-, mennta- og heilbrigðismálum,“ þannig skrifar Kristján Sigurðsson, prófessor emeritus, fyrrverandi yfirlæknir og sviðsstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og Kvennadeild Landspítala, í Moggann í dag. Hann er lítt hrifinn af verkum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
„Greinarhöfundur starfaði í áratugi innan heilbrigðisþjónustunnar og hefur fylgst með afar umdeildri framgöngu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á síðasta kjörtímabili. Má þar nefna aðför að starfsemi sjálfstætt starfandi lækna, deilur um fjármögnun hjúkrunarheimila, vistun biðlista sjúklinga í liðskiptaaðgerðir á erlendri grundu, sóttvarnarreglugerð sem ekki stóðst lög og framgöngu hennar í málefnum krabbameinsleitar kvenna sem leiddi til dreifðrar stjórnunar leitar samhliða útvistun grunnrannsókna leghálskrabbameinsleitar til erlendrar rannsóknarstofu. Ráðherra segist hér fara að ráðum „bestu sérfræðinga“ en hlustar ekki eftir ráðleggingum annarra sérfróðra kunnáttuaðila og hunsar ábendingar fjölmenns hóps kvenna sem stofnað hafa til fésbókarhópsins „Aðför að heilsu kvenna“.
Reynsla síðasta kjörtímabils bendir þannig til að í komandi þingkosningum skipti kyn einstakra frambjóðenda ekki öllu máli heldur ættu kjósendur frekar að byggja mat sitt á trúverðugleika einstakra frambjóðenda og málefnalegri stefnu stjórnmálaflokkanna.“
Í upphafi greinarinnar skrifaði Kristján um hlut kvenna í stórmálunum:
„Konur eru nú tæp 40% þingmanna og 45% ráðherra. Þær eru nú í æ ríkara mæli í fyrstu sætum í forvali og prófkjöri flokkanna, sem bendir til þess að konur verði mögulega í meirihluta þingmanna á næsta þingi. Það ber vissulega að fagna slíkri þróun ef satt reynist að konur hafi meira hyggjuvit en karlar samanber hinar oft tilnefndu „hagsýnu húsmæður“.“