- Advertisement -

Procarmálið orðið pólitískt mál

Nokkuð ber á milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi vegna Procarmálsins. Stjórnarfrumvarp um viðurlög við svikum eins og eigendur Procar stunduðu er allt of veikt að mati stjórnarandstæðinga. Meðal stjórnarandstæðinga er það viðhorf ráðandi að svipta eigi þá rekstrarleyfi sem stunda slíkan óheiðarleika. Stjórnarsinnum þykir nóg að sekta.

„Lögð er til sú breyting að Samgöngustofu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á leyfishafa (einstakling eða lögaðila) sem hefur orðið uppvís að því að breyta kílómetrastöðu skráningarskylds ökutækis, sem skráð er hjá Samgöngustofu í notkunarflokki ökutækjaleigu. Samkvæmt gildandi lögum fellur háttsemin undir brot á góðri viðskiptavenju, án viðlagðra stjórnvaldssekta,“ segir í frumvarpinu.

„Stjórnarfrumvarp þetta á sér rót í stórfelldum brotum sem fólust í fölsun ökumæla í bifreiðum, brotum sem beinast gegn fjárhagslegum hagsmunum og umferðaröryggi,“ sagði Ólafur Ísleifsson Miðflokki.

„Málið kallaði fram hörð viðbrögð fjölmargra aðila þegar það kom upp. Viðbrögð stjórnvalda mega teljast hafa verið heldur linkuleg og svo er um frumvarp þetta. Af þeim ástæðum leggjum við þingmenn Miðflokksins í atvinnuveganefnd til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem hún vinni málið betur,“ sagði hann.

Birgir Ármansson Sjálfstæðisflokki sagði:

„Menn geta verið þeirrar skoðunar að hægt sé að ganga lengra en ég held að það sé allvíðtæk samstaða um að engu að síður sé rétt að stíga það skref sem hér er gert.“

Lára Rafney Magnúsdóttir er meðal þeirra sem vill ekki ganga langt í refsingum:

„Ég tel því að þetta mál gangi vel í þá átt að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur, eins og gerðist varðandi bílaleigurnar, að það sé verið að fikta í mælum. Alltaf má deila um upphæðir stjórnvaldssektanna en þær mæta vel því sem þarna er reynt að ná utan um.“

Inga Sæland er ekki sammála þessu: „Við eigum fleiri verkfæri í töskunni. Ég hefði hiklaust notað það verkfæri að svipta viðkomandi rekstrarleyfi um ákveðinn tíma. Ég hefði hiklaust sent skýr skilaboð um að það sé ekki nóg að greiða smávegis sekt og geta svo haldið uppteknum hætti. Þú skalt hugsa þig um tvisvar, ágæti bílasali, áður en þú framkvæmir á einbeittan hátt þau brot sem þú svo augljóslega gerir.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: