- Advertisement -

Pösturhryllingur í boði íslenska ríkisins

…þegar þær eru opnaðar þá sér maður geimveru í grænum búningi með bláa hanska, sóttargrímu og glæran rafsuðuhjálm.

Magnús R. Einarsson skrifar úr sóttkvíarhóteli:

Þriðja nótt af fimm er framundan hér í sóttkvínni í boði íslenskra skattgreiðenda. Eins og geta má nærri þá var dagurinn ferlega tíðindalítill, og þó. Eftir að hafa pælt í afturbeygjanlegum sögnum spænskum eldsnemma í morgun þá tók við bið og spenna eftir morgunmatnum. Þegar gefið er á garðann hér í sóttinni þá er bankað á dyrnar hjá manni og þegar þær eru opnaðar þá sér maður geimveru í grænum búningi með bláa hanska, sóttargrímu og glæran rafsuðuhjálm. Þessi sjón er óskaplega fyndin, en ég brosi bara inn í mér. Hafandi flogið í nánast fullri flugvél af hugsanlegum pestargemlingum í næstum fimm klukkutíma og ferðast í troðfullri rútu í klukkutíma með fólki frá hááhættuhéraðinu í Valensíu þar sem smit er álíka algengt og kynskiptar kengúrur þá virka búningar og græjur sóttvarnarliðsins eins og úr einhverri dystópískri grínmynd.

Það væri ekki sanngjarnt að kvarta mikið undan sóttkvíarfæðinu í boði íslenska ríkisins. Ég hef vissulega lent í töluvert verri mötuneytum bæði til sjós og lands um ævina. Í hádeginu í gær var meira að segja róstbíf sem var lungamjúkt og í dag kom svínakjöt sem meira að segja toppaði róstbífið. Kvöldmaturinn hefur verið lakari. Í kvöld kom pastaréttur sem var súbstandard. Ekki orð um það meir, því pasta er ítölsk listgrein sem á aldrei að stunda nema fyrir örfáa matargesti í einu. Þegar pasta er kokkuð fyrir fleiri en tvo er alltaf hætta á ferðum. Svo maður tali nú ekki um þegar er verið að fjöldaframleiða pöstuna fyrir fleiri hundruð manns er ekki von á neinu öðru en disastro bestiale.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo er alltaf verið að skamma krakkana og unga fólkið.

Til að stytta mér stundir í dag þá fannst mér það ráð að þýða sóttvarnarbréfið óumbeðinn sem íslenska ríkið sendi mér þegar ég var nauðugur settur í sóttvarnarhúsið. Það reyndist hundleiðinlegt, ekkert skemmtilegt svo ég hætti því sjálfboðastarfi. Óskaplega staglsamur og óinteressant texti. Mér finnst það svo ömurlegt að íslenska ríkið skuli ekki hafa meiri og betri metnað fyrir móðurmálinu en raun ber vitni. Svo er alltaf verið að skamma krakkana og unga fólkið. Gasprið, þvælan og rembingurinn á þinginu, í opinberu nefndunum og ráðunum sem varða íslenska tungu er ekkert nema hlægilegt.

Þess í stað tók ég til við nótnaskrift og gítarspil langt fram á dag. Það var hins vegar skemmtilegt. Svo þreytist maður og þrautalendingin í svona einveru getur orðið ómarkviss, óralöng og misheppnuð leit að einhverju á Netflix. Sú leit tekur oftast alltof drjúgan tíma. Ég lenti á kafbátamynd. Sem ég hefði ekki átt að gera, dýptarfælinn sem ég er og með tilhneigingu til innilokunarkenndar. Niðurstaðan varð sú að leggja í harða sudoku þraut sem ég búinn að klára. Tók tíma. Mér til björgunar og skemmtunar eftir pöstuhryllinginn í kvöld í þessu sóttarfangelsi er líklegast bók sem mér var færð í gær. Hún byrjar vel. Meira síðar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: