Pólitíski frostaveturinn 2018
Leiðari Víst er að það verður frostavetur í íslenskum stjórnmálum. Átök og ágreiningur verða áberandi. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er í sýnilegum og miklum vanda. Almenningur er á vaktinni.
Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu kjarnafylgi og þannig verður það. Sama á hverju gengur. Sjálfstæðisflokkurinn svífur um í einhverju tómarúmi þar sem ekki er fjallað svo mikið um stjórnmál. Miklu frekar um hagsmuni.
Ríkisstjórnin hefur aldrei notið mikils trausts og það litla sem þó var, hefur minnkað stórum. Það truflar hagsmunagæsluna lítið sem ekkert. Það er annað sem truflar. Það er veikur meirihluti á Alþingi og útreið litlu stjórnarflokkanna.
Viðreisn rembist einsog rjúpan við staur. Þrátt fyrir alla viðleitninni sem kann að búa í þeim flokki er staða hans mjög veik. Bjarni Benediktsson hefur enn sem komið er ekki hleypt neinu máli Viðreisnar í gegn og mun ekki gera. Nema þá aðeins ef framtíð ríkisstjórnarinnar, hagsmunastjórnarinnar, verði í hættu. Þá kannski. Þingmenn og ráðherrar Viðreisnar horfa fram á flótta stuðningsmanna. Eftir stendur mun veikari flokkur en hann var þegar kosið var fyrir bráðum einu ári. Það getur ekki annað en verið vont. Mjög vont.
Björt framtíð hefur yfir sér þann blæ að hafa alltaf virst löt og verkfælin. Undantekning sem sannar regluna er Björt Ólafsdóttir. Að hafa séð á eftir langt flestum kjósendum sínum er bagaleg staða fyrir stjórnmálaflokk. Bjarni Benediktsson getur ekki treyst blint á að leti Bjartrar framtíðar vari að eilífu. Fari svo að flokkurinn finni lífsvilja getur það svo sem ógnað ríkisstjórnarsamstarfinu. Kannski verður það næst.
Stjórnarandstaðan er í fríi. Hvort hún eigi eftir að koma hress til starfa veit enginn. Kannski. Kannski ekki. Ríkisstjórnin ein og sér dugar til að hér verði pólitískur frostavetur. Finni stjórnarandstaðan vilja til að láta að sér kveða verður ekki bara kalt, það verður hrimkalt.
Sigurjón M. Egilsson.