VG og Framsókn stöðvuðu Áslaugu Örnu
Samkvæmt frétt í Mogganum komu stuðningsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni, Vinstri græn og Framsókn, í veg fyrir vilja Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og annarra flokksfélaga í Sjálfstæðisflokki í veg fyrir að netsala með áfengi verði leyfð.
„Í stjórnarfrumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislögum, sem lagt var fram á Alþingi í gær, er kveðið á um að smærri brugghúsum verði leyft að selja öl á framleiðslustað. Hins vegar er þar ekki veitt heimild til innlendrar netverslunar með vín í smásölu, líkt og upphafleg drög frumvarpsins gerðu ráð fyrir,“ segir í fréttinni.
„Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má rekja þá breytingu til andstöðu samstarfsflokkanna, bæði innan ríkisstjórnar og þingflokka. Málið velktist mánuðum saman í ríkisstjórn og var svo lengi á hægferð í gegnum þingflokka framsóknarmanna og vinstri grænna. Innan þeirra lagðist meirihlutinn gegn innlendri netverslun með áfengi, þrátt fyrir að sú breyting horfði fyrst og fremst til jafnrar stöðu innlendrar og erlendrar netverslunar. Íslenskir neytendur geta þegar keypt áfengi í smásölu frá erlendum netverslunum í skjóli Evrópureglna.“
Svo segir í fréttinni: „Hins vegar var mun víðtækari stuðningur við að gera undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis hjá smærri brugghúsum, svonefndum handverksbrugghúsum, enda er fremur litið á það sem styrktaraðgerð gagnvart landsbyggðinni og ferðaþjónustu.
Frumvarpið virtist raunar njóta svo mikilla vinsælda meðal framsóknarmanna, að þeir lögðu fram eigið frumvarp þar að lútandi á þriðjudag, að efni og orðalagi merkilega líkt stjórnarfrumvarpi Áslaugar Örnu.“