- Advertisement -

Pólitísk spilling eða getuleysi

Guðmundur Þ. Ragnarsson.
„Hvort ástæðan er svona mögnuð dulin pólitísk spilling eða algert meðvitað pólitísk getuleysi í hagmunagæslu fyrir ákveðna aðila er spurningin sem liggur þungt á mér í dag.“

Skoðun Oftar og oftar sækir á mig sú tilfinning að á Íslandi sé mjög alvarleg pólitísk spilling, spilling sem stýrt er af eignaröflunum í landinu. Lengi hallaðist ég að því að pólitískt getuleysi væri þess valdandi að lítið eða ekkert er tekið á því sem snýr að svindli og lögbrotum. Nýjasta dæmið er umgengnin um sjávarauðlindina. Í þættinum „Kveikur„ sem sýndur var á RÚV, var sýnt fram á svindl og þjófnað á verðmætum í eigu þjóðarinnar, auk mjög sóðalegrar umgengni sem margir hafa orðið vitni að og verið þátttakendur í.

Að vanda tók það umræðuna þrjá sólahringa að fjara út. Engin viðbrögð hafa verið frá pólitíkinni þó að stofnun á vegum stjórnvalda hafi meðvitað hylmt yfir þjófnaði á fiski og verið væri að svindla á sjómönnum, á réttlátum hlut þeirra úr verðmætunum sem komið var með að landi.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein um verðlagsmál á fiski. Þau skrif enduðu í þremur Kastljóssþáttum þar sem fjallað var um hugsanlega sjálftöku handhafa sjávarauðlindarinnar. Þeir verðlögðu fiskinn eins og þeim þóknaðist út úr landinu og lækkuðu um leið laun sjómanna. Og að lítið eftirlit var með því hvort að afurðarverðin væru sambærileg því sem aðrar þjóðir voru að fá fyrir samskonar fisktegundir og afurðir, og þá um leið að samfélagið fengi réttar tekjur af auðlindinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef ítrekað reynt að ná samtali við ráðamenn og alþingismenn um þessi mál. En það virðast allir forðast að taka upp umræðuna. Meðan við höfum það fyrirkomulag sem er á afnotum sjávarauðlindarinnar er það ekki einkamál þeirra sem fá að nýta hana, hvernig þeir verðleggja hana til áhafnar og út úr landinu. Sé þetta rétt þá geta þeir tekið hluta af arðinum erlendis, og það beint í vasann án þess að greiða rétt gjöld til samfélagsins. Þetta er það sem er að skapa spennu á milli sjómanna og útgerða og í samfélaginu öllu. Þess vegna verða stjórnvöld að koma að þessu og hjálpa við að koma skikk á þessi mál.

Á fundi með vélstjórum á fiskiskipum eftir Kastljósþættina var ég bjartsýnn á að við færum að fá vitræna umræðu með LÍÚ sem þá var, en er í dag SFS, um verðlagsmálinn og þá sérstaklega á uppsjávarfiski. Þá rétti eldri maður upp höndina út í sal og bað um orðið.  Hann óskaði mér velfarnaðar í að ná að hækka fiskverðið til sjómanna og sagði svo, „…ef þú nærð fram hækkun á fiskverðinu þá taka þeir bara hækkunina af okkur í vigtinni.“ Ég horfði orðlaus á hann, því ég vissi að hann hafðir rétt fyrir sér og enginn myndi taka á þessu, sem allir vita að var rétt.

Það virðist vera alveg sama hvað stjórnvöldum og þingmönnum er ítrekað sýnt fram á allt sukkið og svínaríið sem viðgengt á öllum sviðum samfélagsins. Þaðan koma aldrei nein viðbrögð. Við erum með lög og reglur, það vantar ekki, en það er öllum stofnunum haldið niðri til að fyrirbyggja að hægt sé að gera eitthvað til að fyrirbyggja augljós lögbrot.

 

Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið, skatturinn, Útlendingastofnun, Fiskistofa, Verðlagstofa skiptaverðs, Matvælastofnun, Samgöngustofa, ráðuneyti, kennitöluflakk, undanskot frá skatti, misnotkun á erlendu vinnuafli o.fl, o.fl.
Ég held að ákveðinnar þreytu gæti hjá fjölmiðlum til að fjalla um og draga upp allt það sem viðgengst í samfélaginu því það eru engin viðbrögð við fréttunum og enginn til að taka á málum eða í það minnsta að stoppa augljós lögbrot, samkvæmt gildandi lögum þessa lands.

Hvort ástæðan er svona mögnuð dulin pólitísk spilling eða algert meðvitað pólitísk getuleysi í hagmunagæslu fyrir ákveðna aðila er spurningin sem liggur þungt á mér í dag.

Ég held að þetta sé spilling.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: