- Advertisement -

Plís, gefðu kost á þér?

Enginn finnst sem vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Gengið er milli flokksfélaga og þeir beðnir um að fara í framboð. Án árangurs.

Valhöll: Gengið er á milli fólks og það vinsamlegast beðið um að vera með. Enn hefur sú aðferð ekki borið árangur.

Umræðan Fádæma vandræði eru nú á borði Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki nóg með að tveir ráðherrar flokksins sitji kolfastir í dómaraflækju flokksins, heldur og er, þá styttist óðum í boðað leiðtogaprófkjör flokksins í sjálfri Reykjavík. Borginni sem í áratugi var höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins.

Eftir þrjár vikur á prófkörið að fara fram og enginn frambjóðandi hefur stigið fram og sóst eftir að leiða lista flokksins. Af Valhallartíðindum að merkja virðist ekki einn einasti flokksfélagi hafa minnsta áhuga á að gefa kost á sér. Leitað hefur verið til margra um að gefa kost á sér, en allt komið fyrir ekki.

Þegar er skýrt og ljóst að sá einstaklingur sem að endingu leiðir lista Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í vor gerir það ekki sjálfviljugur. Sá mun þá hafa látið undan þrýsting um að fara í framboð. Meiri reisn er nú ekki yfir Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hið minnsta er einn Sjálfstæðismaður byrjaður kosningabaráttuna. Sá er Davíð Oddsson. Hann hefur skrifað nokkra dálkkílómetra um vonleysi núverandi meirihluta og ekki síst borgarstjórans, Dags B. Eggertssonar. Þrátt fyrir það allt saman er staða Sjálfstæðisflokksins með fádæmum aum í borginni. Flokkurinn fær hvorki karl né konu til að leiða lista flokksins.

Gengið er á milli fólks og það vinsamlegast beðið um að vera með. Enn hefur sú aðferð ekki borið árangur. Það verður spennandi, fyrir okkur hin, að sjá hver segir já og gefur kost á sér. Þá augljóslega gegn eigin vilja. Fyrir stjórnendur flokksins er staðan vægast sagt pínleg.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: