Bjarni gerir of lítið fyrir það sem verður að komast óskaddað í gegnum vandann, fólk af holdi og blóði.
Gunnar Smári skrifar:
Gallinn við plan Bjarna Benediktssonar er að það byggir á sandi. Til dæmis þeirri fullvissu hans að bankarnir standi vel, eigi mikið eigið fé. Hvers virði haldið þið að lán bankanna til ferðaþjónustunnar og verktakafyrirtækja sem eru að byggja hótel og lúxusíbúðir séu í dag? Það er ekki bara að þessi lán séu einskis virði í dag í ljósi uppþornunar ferðamannastraumsins heldur er verðlækkun þessara eigna og niðurfelling lána forsenda þess að hægt verða að byggja upp ferðaþjónustu að nýju, hægt og bítandi þegar hættan af kórónavírusnum er liðin hjá og alþjóðlegri efnahagskreppu linnir. Eigið fé bankanna var blásið út af bólunni undanfarin ár. Kórónavírusinn hefur þegar þurrkað það út.
Annað er hugmynd hans um að bankakerfið geti með lánum haldið lífi í fyrirtækjum án rekstrar vikum og mánuðum saman. Björgunaraðgerðir Bjarna byggja á að fyrirtækin taki á sig samdrátt en nú er ljóst að svo til allt mun lamast fyrir utan heilbrigðiskerfið, matvæladreifingu og annað sem þarf til að halda fólki á lífi. Það er komi útgöngubann í mörgum nágrannalanda okkar. Evrópa er að slökkva á sér og mörg fylki Bandaríkjanna. Þetta er ekki spurning um hvernig fleyta má fyrirtækjum í gegnum niðursveiflu. Þetta er spurning hvernig slökkt er á hagkerfinu og hvernig kveikja má svo á því aftur.
Grunnforsenda aðgerða Bjarna er að pumpa fé í gegnum bankakerfið til fyrirtækja. Það sem þarf að gera er hins vegar að taka fjármálakerfið og djúpfrysta það, stöðva allar afborganir, allar vaxtagreiðslur og allar leigutekjur. Það hefur engan tilgang að ríkið láti fyrirtæki fá peninga til að borga almenningi laun. Þegar reksturinn er horfinn munu fæst fyrirtæki geta borgað 25% launanna sem krafist er.
Þunnt eignarhald eigenda flestra fyrirtækja er horfið, reksturinn er að gufa upp og verður í raun bannaður þegar sóttvarnaraðgerðir herðast. Launafólki á almennum markaði verður þá sagt upp og það fer á atvinnuleysisbætur en fólk sem vinnur hjá hinu opinbera heldur launum sínum. Rétt viðbrögð væru að frysta vinnumarkaðinn, eins og fjármálamarkaðinn, fella niður öll laun og setja alla landsmenn á borgaralaun, sömu upphæðina sem duga ætti fyrir mat og framfærslu meðan að faraldurinn gengur yfir. Aðeins fólk sem starfar við heilbrigðiskerfið, matvæladreifingu og annað sem nauðsynlegt er að halda gangandi þarf að vera á launum.
Skoða má að ráða fólk til að þrífa þau opinberu svæði sem fólk má enn nota, fólk til að flytja mat heim til fólks og annarra verka sem farsóttin kallar á, en allt annað fólk ætti að setja á borgaralaun sem tækju mið af fjölda heimilisfólks. Frammi fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir á að horfa á ábyrgð hins opinbera gagnvart fólki, að tryggja því mat og öryggi. Það er frumskylda. Að ætla að gera það í gegnum fjármálakerfið og fyrirtæki án reksturs, fyrirtæki sem er bannað að stunda rekstur eða verður það fljótlega, er undarleg þráhyggja. Eða ótti við að ef ógnarvald fyrirtækja yfir almenningi verður losað um stund muni fólk aldrei sætta sig við hana aftur.
Frumskylda Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnarinnar er að beita afli ríkisins til að koma fólki í gegnum næstu vikur og mánuði. Það verður ekki gert með því að auka útlánagetu bankanna, það á að frysta fjármálakerfið ekki setja í það meira afl. Það má gera þegar kveikja þarf aftur á kerfinu. Almenningi verður ekki hjálpað með því að halda fyrirtækjum án rekstrar á lífi í gegnum lokun kerfisins. Það á að nýta þá fjármuni til að kveikja á þeim fyrirtækjum sem þörf er á eftir að hættan er liðin hjá. Þetta er vandinn við björgunaraðgerðir Bjarna Benediktssonar; hann vanmetur vandann og leggur áherslu á að bjarga því sem á að svæfa, sálarlaus kerfin, en gerir of lítið fyrir það sem verður að komast óskaddað í gegnum vandann, fólk af holdi og blóði.