- Advertisement -

„Plagsiður í ríkisstjórninni að rífa upp starfsemi með rótum án þess að vita hvað eigi að gerast næst“

„Ég veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja að gagnrýna þetta mál vegna þess að það virðist vera einhver plagsiður í ríkisstjórninni að rífa upp starfsemi með rótum án þess að vita hvað eigi að gerast næst,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki þegar þar var til umræðu slátrun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

„Þetta hefur t.d. verið mjög áberandi í störfum hæstvirts heilbrigðisráðherra sem hefur rifið upp með rótum alls konar starfsemi án þess að vera með í hendi hvað gera skuli næst. Þetta mál er af sama toga. Hér á að tæta niður ríkisstofnun og það er reyndar búið að því, þrátt fyrir að þetta frumvarp sé ekki orðið að lögum. Það er búið að segja upp fólki hjá Nýsköpunarmiðstöð, fólki með áratugareynslu og -starfsaldur, það er búið að segja því upp. Þannig að ef skynsemin kemur til með að ráða hér í þingsal, sem gæti gerst og gerist vonandi, og þetta frumvarp verður fellt eða kallað til baka, sem væri í sjálfu sér best, hvað verður þá um fólk sem búið er að segja upp hjá Nýsköpunarmiðstöð? Það kom fram í máli þeirra sem ég heyrði í á þeim tíma þegar frumvarpið var lagt fram að það var ekki einungis, herra forseti, að ekki hefði verið haft samráð við starfsfólk sem þarna var með áratugastarfsaldur heldur var þetta fólk gjörsamlega hunsað, herra forseti. Það var ekki virt viðlits.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: