Fáar byggingar, eða nokkrar, standa hærra í landinu en Moggahúsið, sem byggt er á „sprungusvæðinu“ ofan við Rauðavatn. Það er vindasamt þar upp frá. Í dag opinberast pirringur úr húsinu þar.
„Íslendingar eru almennt séð ekki neinir vitleysingar. Hvernig stendur þá á því að það virðist grassera hér útbreiddur misskilningur um þýðingarmestu mál, þrátt fyrir reglubundnar beinar útsendingar af fréttamannafundum um þau sömu mál?
Íslendingar stóðu í þeirri trú að þeir hefðu haldið þannig um okkar veirumál að aðrar þjóðir væru grænar af öfund. En hin íslenska leið hefði þýtt að fátítt væri að menn þar hefðu myndað mótefni gegn henni. En það er þekkt að sá árangur breytist í algjöra andstæðu sína ef ekki tekst að koma í veg fyrir að hingað komi fólk frá löndum með heilbrigðismál sín í algjörri upplausn.“
Næst er það Evrópusambandið og bévítis Mannréttindadómstóllinn:
„Rúmenía er meðlimur ESB, en það hefur litlu breytt um stjórnarfar þar. Mannréttindadómstóllinn frægi gæti haft mikið að gera í málefnum þar, væri hann ekki aðallega að sinna hlutverki sem almennur áfrýjunardómstóll fyrir Ísland, sem engin heimild er þó til um í íslenskum lögum.“
Aðeins fyrr segir í pirringi dagsins: „Ekki verður því trúað að við hér höfum verið á undan fylkis- og borgarstjórum úr röðum demókrata í Bandaríkjunum sem ætla sér í framtíðinni að ráða félagsfræðinga í stað lögreglumanna til að tala um fyrir glæpamönnum sem ráðast inn á heimili fólks vopnaðir vélbyssum.“