- Advertisement -

Pírötum stillt upp við vegg

Sanna Magdalena Mörtudóttir vill reyna á innræti Pírata í baráttu sinni til að fá áheyrnarfulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar. „Píratar hafa mikið lagt upp úr gagnsæi og lýðræðislegum vinnubrögðum í sinni stefnu svo ég er nokkuð vongóð um að fá stuðning þaðan,“ segir Sanna.

Sanna Magdalena:
„Píratar hafa mikið lagt upp úr gagnsæi og lýðræðislegum vinnubrögðum í sinni stefnu svo ég er nokkuð vongóð um að fá stuðning þaðan.“

Fyrrverandi borgarstjórn samþykkti veigamiklar, og jafnvel ólýðræðislegar breytingar í apríl í vor, sem koma í veg fyrir að minnstu flokkarnir í borgastjórn fái áheyrnarfulltrúa í nefndir og ráð í borgarinnar.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, mun leggja það til á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar að samþykktum borgarstjórnar verði breytt aftur svo þeir flokkar, sem ekki fá kjörna fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar, fái að skipa í öll ráð áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt.

„Ég hef ekki náð að átta mig á hvaða hugsun lá að baki breytingunum í apríl þegar áheyrnarfulltrúar voru felldir út,“ segir Sanna, „að einhverju leyti spilaði sparnaðarsjónarmið inn í og mögulega ótti við að fundir yrðu of fjölmennir. En mér finnst þessi rök veigalítil þegar aðgengi lýðræðislega kjörna borgarfulltrúa að stjórnkerfi borgarinnar er skert með svona afgerandi hætti.“

„Ólýðræðisleg túlkun“

Sanna segir að allir minnihlutaflokkarnir styðji þessa tillögu, þar af leiðandi 11 af 23 borgarfulltrúum. „Það er því nóg að annar af borgarfulltrúum Pírata styðji tillöguna. Píratar hafa mikið lagt upp úr gagnsæi og lýðræðislegum vinnubrögðum í sinni stefnu svo ég er nokkuð vongóð um að fá stuðning þaðan,“ segir Sanna.

Sigurður Ingi Jóhannsson:
Rá’ðuneyti hans fær kæru frá Sósaílaistum til úrlausnar.

Auk þessarar tillögu vinna sósíalistar í borginni að því að fá hnekkt túlkun skrifstofu borgarstjórnar á sveitastjórnarlögum þess efnis að ef sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins bjóða fram lista til að koma fulltrúa frá einum af þessum flokkum inn í borgarráð þá fyrirgeri hinir ekki rétti á að skipa áheyrnarfulltrúa þar. Eftir breytingarnar í apríl sitja aðeins eftir áheyrnarfulltrúar í borgarráði og samgöngu- og skipulagsráði, einu ráðunum sem hafa heimild til fullnaðarafgreiðslu einstakra mála. En skrifstofa borgarstjórnar túlkar lögin þannig að flokkar fyrirgeri rétti sínum til að skipa áheyrnarfulltrúa ef þeir styðja kjör fulltrúa annars flokks til setu í ráðunum.

„Þetta er einkar ólýðræðisleg túlkun,“ segir Sanna. „Þar sem forseti og varaforsetar borgarstjórnar hafa ekki verið kjörnir er í dag engin forsætisnefnd að störfum, sem gæti hnikað til þessari túlkun. En það er ljóst að hinir kjörnu fulltrúar verða að stíga inn í þetta mál til að tryggja öllum flokkum réttlátt aðgengi að þessum ráðum.“

Undirbúa kæru til sveitastjórnarráðuneytisins

Sósíalistar hafa undirbúið kæru til sveitarstjórnarráðuneytisins til að fá túlkun skrifstofu borgarstjórnar breytt. Að sögn Sönnu er ólíklegt að nokkrir flokkar í öðrum sveitastjórnum standi frammi fyrir sama vali og sósíalistar, Miðflokkur og Flokkur fólksins í Reykjavík, að þurfa að velja á milli þess að sækjast eftir einu sæti í borgarráði og samgöngu- og skipulagsráði og fórna með því áheyrnarfulltrúum eða að velja áheyrn handa öllum flokkunum en gefa Sjálfstæðisflokknum eftir atkvæði sitt í ráðunum.

Ef ekki fær Sjálfstæðisflokkur einum fleiri

„Aðstæður í Reykjavík eru svo sérstakar vegna fjölda flokka að þessir ágallar lagana í samspili við breyttar samþykktir hafa ekki komið fram fyrr en nú. Þegar það gerist þarf að beita túlkun sem tekur veigameiri atriði fram yfir veigaminni. Og í þessu tilfelli er klárt að það sem er mikilvægast er gagnsæi, virkt lýðræði, jafnræði milli flokka og réttur þeirra kjósenda sem kusu í nýliðnum borgarstjórnarkosningunum,“ segir Sanna.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks.
Að óbreyttu fær flokkur Eyþórs einn fulltrúa til viðbótar á ráð og nefndir.

Að óbreyttu munu 16,8% kjósenda sem kusu sósíalista, Miðflokk og Flokk fólksins ekki fá neinn fulltrúa í borgarráði og samgöngu- og skipulagsráði. Þetta er meira en helmingur þeirra atkvæða sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk, en að óbreyttu mun hann fá þrjá fulltrúa í borgarráð og samgöngu- og skipulagsráð.

„Það kostulega er að með því að styðja túlkun skrifstofu borgarstjórnar og bregðast ekki við afleiðingum hennar eru Píratar, Vg, Samfylking og Viðreisn að færa Sjálfstæðisflokknum auka mann í borgarráð og annan í samgöngu- og skipulagsráð“ segir Sanna. „Ég held að kjósendum þessara flokka finnist það skrítin niðurstaða, að þeir séu að styðja aukið vægi Sjálfstæðisflokksins við stjórn borgarinnar.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: