Stjórnmál

Pírati skellihló af Sigmundi Davíð

By Ritstjórn

April 06, 2021

„Ég skellihló þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði fyrst um róttæka skynsemishyggju. Enn get ég brosað út í annað þegar minnst er á þessa nýju stjórnmálastefnu,“ skrifar Álfheiður Eymarsdóttir verðandi oddviti Pírata í Suðurkjördæmi.

„Fyrir mér er þetta hugtak dæmigerð þversögn. Oxymoron,“ skrifar hún heldur áfram:

„Skynsemi er nefnilega alls ekki róttæk. Skynsemin er varfærin og viðtekinn sannleikur, lærdómur reynslunnar.

En róttækni er tilraunastarfsemi, hugrekki til nýs framtaks, að vera óhræddur við að breyta og bæta án nokkurrar reynslu af framtakinu/hugmyndinni.

Nú hef ég rökstuddan grun um að hér á spjallinu sé afburða vel gefið fólk, framsýnt og málefnalegt -vel að sér í listinni að spökulera (já ég vil skrifa þessa slettu með k-i) og rökræða. Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað felst í þessari nýstárlegu stefnu? Kannski er málskilningur minn svona takmarkaður? Getur verið að ég hugsi of línulega og SDG vilji einmitt ögra -svipað og Píratar neita að vera til hægri eða vinstri? Hvað er málið og hverju er ég að missa af?“