Þingflokkur Pírata hefur sent formlegt erindi til ÖSE þar sem kallað er eftir að stofnunin skipuleggi kosningaeftirlit í haust. „Ég vænti þess að forseti og aðrir flokkar hér á þingi taki undir með okkur, enda er það hagur allra, jafnt innan sem utan þessara veggja, að kosningarnar fram undan litist ekki af andlýðræðislegum afskiptum eins og þeim sem við höfum fengið að kynnast,“ sagði Andrés Ingi Jónsson á Alþingi fyrir fáum mínútum.
„Í síðustu viku funduðu fulltrúar Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE með ýmsum hér á landi til að meta þörfina á kosningaeftirliti í alþingiskosningunum í september. Sjálfur sat ég tvo fundi. Þar lýsti ég áhyggjum af stöðu fjölmiðla, sérstaklega í ljósi þess sem við þá vissum, hvernig Samherji hefur undanfarna mánuði beitt sér gegn Helga Seljan vegna frétta um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Slíkar aðgerðir geta hæglega haft kælandi áhrif á gagnrýna fjölmiðla sem aftur hefur neikvæð áhrif á möguleika okkar til að tryggja frjálsar og sanngjarnar kosningar. Á þeim dögum sem liðnir eru síðan fulltrúar ÖSE funduðu með okkur hefur staðan breyst gríðarlega.Stundin og Kjarninn hafa leitt í ljós að afskipti Samherja voru mun skipulagðari og djúpstæðari. Svokölluð skæruliðadeild á vegum Samherja beitti sér ekki bara gegn einstökum blaðamönnum og fjölmiðlum heldur reyndi hún að hafa áhrif á val formanns Blaðamannafélagsins og prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Þetta er grafalvarleg staða. Í kosningum sem munu m.a. snúast um eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni er stórhættulegt að fjársterkt útgerðarfyrirtæki beiti sér með þessum hætti gegn gervöllu gangvirki lýðræðisins, beiti hagnaðinum af þessari sömu auðlind í herferðir gegn pólitískum andstæðingum, opinberri umræðu og frjálsum fréttaflutningi.“