Greinar

Pétur Gunnarsson

By Miðjan

November 25, 2018

Áður en ég kynntist Pétri Gunnarssyni vissi ég af honum. Við höfðum hist á blaðamannafundum. Hann var á Mogganum, ég á DV.

Kynni urðu milli okkar þegar Hafskipsmálið var til meðferðar í Sakadómi Reykjavíkur. Við sátum hlið við hlið í dómssalnum í margar vikur. Fljótt sá ég mannkosti Péturs. Hversu vel gefinn hann var, hversu minnugur hann var, hversu góður blaðamaður hann var. Umfram allt kynntist ég traustum og skemmtilegum manni.

Kunningsskapur var með okkur æ síðan. Saman vorum við, ásamt hópi fólks, í fyrstu áhöfn Fréttablaðsins. Hann var fyrsti fréttastjórinn. Fljótlega urðum við báðir fréttastjórar og samvinna okkar varð mikil.

Aldrei bar skugga á okkar félagsskap. Mikið álag hefði geta spillt góðri samvinnu, en svo varð ekki.

Ég fylgdist með baráttu Péturs við veikindin. Án þess þó að heimsækja hann. Þrátt fyrir að hann hafi glímt við mikil veikindi bregður mörgum þegar dauðinn bankar upp á. Það á við um mig.

Genginn er góður maður sem unni sínum. Pétur sagði mér stundum frá börnunum sínum og stoltið leyndi sér ekki. Söknuður fjölskyldurnar er mikill. Eins hafa blaðamenn misst einn þann besta úr sínum röðum.

Þar sem ég er til vetrardvalar á Spáni kemst ég ekki, í jarðarförina, til að kveðja Pétur. Ég sendi Önnu Margréti og öllum öðrum syrgjendum hugheilar samúðarkveðjur.

Sigurjón M. Egilsson.