Persónuvernd heimilar njósnir um fólk
Fólk getur njósnað um nágranna sína og sent nafnlausar ábendingar til Tryggingastofnunar. Flestar ábendingarnar eru tilhæfulausar. Persónuvernd samþykkir.
Tryggingastofnun hefur heimildir til að afla á laun upplýsinga um bótaþega sem og maka þeirra.
„Við skulum átta okkur á því vegna hverra verið er að setja upp hnapp til þess að upplýsa um að þeir séu svikarar. Við erum að tala um veikt fólk. Við erum að tala um barnafólk. Við erum að tala um eldri borgara þessa lands. Við erum að tala um að þetta fólk sé þannig að það þurfi að setja sér svikahnapp vegna þess,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í umfangsmikilli ræðu á Alþingi, þegar rætt var um persónvernd. „Ég segi: Ef þetta er löglegt og má, þá verðum við að fara að setja upp svona hnappa hjá skattstofunni, stjórnsýslunni, og hér á Alþingi,“ sagði Guðmundur Ingi.
Persónuvernd sagði nei, síðan já
Hér er hann að tala um nafnlausan „hnapp“ til Tryggingastofnunar þar sem hægt er að senda nafnlausar ábendingar hafi fólk vissu eða bara grun um að bótaþegar stundi svik á tryggingakerfinu.
Guðmundur Ingi rakti söguna nokkur ár til baka: „Það er undarlegt að Tryggingastofnun var á sínum tíma kærð til Persónuverndar fyrir svokallaðan bótasvikahnapp. Persónuvernd sagði að þessi viðkomandi bótasvikahnappur væri ólöglegur, Tryggingastofnun mætti ekki setja upp samsvarandi hnapp nema með leyfi Persónuverndar,“ sagði hann.
Nú er búið að setja hnappinn upp aftur. Persónuvernd úrskurðaði árið 2015 að þessar upplýsingar væru brot á lögum um persónuvernd. TR fjarlægði hnappinn í framhaldinu, en nú er hann kominn upp aftur. Persónuvernd segir já núna við hnappnum, en sagði nei áður.
Flestar rannsóknirnar tilhæfulausar
Guðmundir Ingi hélt áfram: „Eins og fram kom var óvíst um heildarfjölda ábendinga sem bárust á þessum tíma, en talað var um að 521 skjólstæðingur hefði verið tekinn til rannsóknar. Í þriðjungi tilfella, í 172 málum eða eitthvað álíka, var eitthvað á bak við en ekkert var sannað á tvo þriðju hluta þeirra í rannsókninni, 349 skjólstæðingar alls. Tryggingastofnun bætir við að það þýði ekki að ábendingin hafi ekki átt við rök að styðjast.“
Með njósnunum höfðu sem sagt tveir þriðju ábendinga, sem voru tekin til rannsókn, verið tilhæfulaus. Tryggingastofnun leitaði lúsarleit í fjárhag 349 skjólstæðinga sinna í erindisleysu.
„En hverjir voru þessir einstaklingar sem verið var að reyna að ná með þessum blessaða hnappi? Jú, verið var að reyna að finna hjón sem voru að skilja að borði og sæng til þess að standa betur fjárhagslega, bjarga sér,“ sagði Guðmundur Ingi.