- Advertisement -

Peningastefnan er úr sér gengin

- Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra veltir fyrir sér háum vöxtum hér á landi.

Er það eitthvert náttúrulögmál að vextir þurfi að vera miklu hærri hér en í nágrannalöndum okkar, þó svo að verðbólga sé lítil sem engin. Er til of mikils mælst að við njótum sambærilegra vaxtakjara af húsnæðislánum? Hvernig stendur á því að vaxtamunur við nágrannalönd okkar er í hæstu hæðum á sama tíma og verðbólga án húsnæðis er -1,4%?

Á morgun ákvarðar Seðlabanki Íslands stýrivexti sína. Einhverjar vonir standa til vaxtalækkunar enda löngu tímabært að bankinn lækki stýrivexti sína myndarlega. Verðbólga er lítil sem engin og þegar horft er til þróunar verðlags án húsnæðis er hér verðhjöðnun. Það er hins vegar lítil ástæða til bjartsýni í þessum efnum. Þrátt fyrir þessa stöðu er vaxtamunur við evru í hæstu hæðum. enda hefur bankinn löngum fundið góðar afsakanir til að halda hér vaxtastigi mun hærra en í nágrannalöndum okkar. Þar er ýmist horft til verðbólgu, þenslu eða stöðu gengis, allt eftir því hvað henta þykir hverju sinni.

Munurinn hefur aukist

Markmið bankans á hins vegar aðeins að vera verðlagsstöðugleiki. Eins og sjá má á myndinni hefur verðbólga án húsnæðis farið hér ört lækkandi allar götur frá 2011. Á sama tíma hefur vaxtamunur við nágrannalönd okkar hins vegar aukist jafnt og þétt. Verðbólga er nú mun minni hér á landi en innan EES svæðisins, en engu að síður er vaxtamunur í hæstu hæðum. Það verður áhugavert að heyra á morgun hvernig bankinn rökstyður þennan mun.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er löngu ljóst að núverandi peningastefna er úr sér gengin. Afleiðingar mikils vaxtamunar nú eru kunnuglegar. Gengdarlaus gengisstyrking sem grefur undan útflutningsgreinum okkar og skapar hér umhverfi fyrir vaxtamunarviðskipti og mikið gjaldeyrisinnflæði. Stöðugt rekstrarumhverfi fyrir útflutningsgreinar er nauðsynlegt ef hér á að skapa fjölbreytta flóru útflutningsfyrirtækja, t.d. í tengslum við hugvit og tækni, en ekki aðeins útflutning á afurðum náttúruauðlinda okkar. Eigi sprotafyrirtæki, þar sem launastig er hátt og virðisaukinn mikill, að fá að vaxa hér og dafna, þarf peningastefnu sem stuðlar að gengisstöðugleika en ekki síendurteknum öfgafullum sveiflum.

Verður að móta nýja stefnu

Ef hér á að skapa samkeppnishæf lífsskilyrði þar sem vaxtastig er sambærilegt við nágrannalönd okkar; þar sem heimili geta fjármagnað íbúðarhúsnæði án þess að borga það margfalt til baka; þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki eiga einhverja von til hagstæðra lánakjara, verður að móta hér nýja peningastefnu. Það er því ánægjulegt að farin sé af stað vinna á vegum stjórnvalda um endurskoðun hennar. Sjálfur bind ég mun meiri vonir við slíka endurskoðun en að Seðlabanki Íslands dragi lærdóm af fyrri mistökum og lækki hér vexti myndarlega.

Greinina skrifaði Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra og birti á Fésbókarsíðu sinni.

Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: