Óli Björn Kárason skrifar grein í Moggann í dag, sem og aðra miðvikudaga. Ekki er minnsti vafi á, hvort sem fólk er sammála Óla Birni eða ekki, að hann er ber höfuð og herðar yfir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og jafnvel þó víðar væri leitað, þegar kemur að pólitík. Þar hefur hann mótaðar skoðanir. Nú skrifar hann um listir og menningu og sér ástæðu til að hnýta aðeins í Ríkisútvarpið. Hann skrifar:
„Ríkisútvarpið fær í sinn hlut 4.645 milljónir króna á þessu ári auk tekna af auglýsingum (2.038 milljónir árið 2017). Árið 2010 fjallaði ég um Ríkisútvarpið í tímaritinu Þjóðmálum og lagði fram róttækar hugmyndir um uppstokkun á skipulagi og starfsemi ríkisfjölmiðilsins. Þótt tillögurnar séu róttækar eru þær fremur einfaldar. Fyrir utan að reka fréttastofu á Ríkisútvarpið fyrst og síðast að vera lítil stofnun sem kaupir efni frá sjálfstæðum framleiðendum – þætti í útvarp og sjónvarp á öllum sviðum; kvikmyndir, framhaldsþætti, skemmtiþætti, umræðuþætti, fréttaskýringaþætti, tónlist, leikrit, heimilda- og fræðsluþætti.
Sé miðað við framlög til Ríkisútvarpsins á þessu ári í formi útvarpsgjalds gæti fyrirtækið keypt efni af innlendum kvikmynda-, dagskrárgerðar- og listamönnum fyrir yfir 3.100 milljónir króna á árinu, ef hugmyndunum væri fylgt eftir. Ekki ónýt vítamínsprauta fyrir íslenskt menningar- og listalíf.
Það er ekki fjárskortur sem hrjáir lista- og menningarlífið heldur meðferð fjármuna og úrelt stofnanafyrirkomulag, sem sést vel í Efstaleiti. Frjór jarðvegur verður ekki til með sífellt auknum ríkisstyrkjum, heldur með uppstokkun á úr sér gengnum stofnunum og regluverki.“
Fyrirsögnin er Miðjunnar.