- Advertisement -

Peningana aftur heim

Greinarhöfundarnir: Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson.

Tillaga okkar er því sú að ríkisstjórnin setji lög um að taka tímabundið upp þrepaskiptann skyldusparnað til að slá á einkaneyslu.

Það er frumskilyrði að þessi skyldusparnaður væri þrepaskiptur, sem myndi þýða að þeir sem mest hafa og viðhalda þenslunni, myndu spara mest og þar með myndi lausafé í umferð minnka verulega og slá á verðbólguna.

Með þessu væri fé heimilanna ekki beint til bankanna, engum til góðs, heldur ættu heimilin það til síðari nota og því væri hægt að veita út í hagkerfið þegar þörf væri á innspýtingu.

Áhrifin væru þau að Seðlabankinn þyrfti ekki að beita vaxtatækinu af jafn mikilli hörku og hann gerir nú til að bregðast við aukinni verðbólgu, hann gæti jafnvel alveg sleppt vaxtahækkunum því skyldusparnaðurinn myndi minnka ráðstöfunarfé heimilanna eins og vaxtahækkunum er ætlað að gera.

Ef hætt væri að beita vaxtahækkunum myndi húsnæðiskostnaður heimilanna haldast nokkuð stöðugur, hvort sem um væri að ræða lán eða leigu, því það er staðreynd að auk þess að hækka greiðslubyrði lána skila vaxtahækkanir sér beint inn í leiguverð og bitna jafnframt helst á fyrstu kaupendum, ungum fjölskyldum sem mest skulda.

Með þrepaskiptum skyldusparnaði væri hægt að hlífa lægstu tekjutíundunum að miklu eða öllu leyti, á meðan að þunginn af þessum „kostnaði“ myndi færast þangað sem hann á heima; til þeirra sem mest hafa á milli handanna og minnst skulda, og valda þar með meiri þenslu en hin sem rétt eiga í sig og á.

Hversu hár skyldusparnaðurinn yrði þurfa sérfræðingar hjá ríkinu að reikna út. Til að slá á einhverja tölu þá getum við tekið dæmi um að hann yrði 10% hjá þeim sem eru í meðaltekjum.

Það myndi þýða um 70.000 krónur á mánuði, sem flesta myndi vissulega muna um, en er engu að síður margfalt minna en flest heimili eru að greiða núna vegna vaxtahækkanna Seðlabankans.

Auk þess sem þetta fé kæmi aftur „heim“ þegar verðbólgan hefði hjaðnað og þörf væri á innspýtingu.

Ef það væri eftir eitt ár, ætti þetta heimili 840.000 í sparnaði í stað þess að hafa greitt bankanum 2,4 milljónir aukalega vegna vaxtahækkana á einu ári, og fá ekkert af því til baka.

Ef talan væri 10% fyrir meðallaun væri hún kannski 15% á milljón og svo stighækkandi, þannig að þau sem mest eiga, minnst skulda og valda hvað mestri þenslu, þyrftu að spara mest.

Á þessu myndu allir græða og, þó við tökum undir með fjármálaráðherra að þetta þurfi að útfæra vandlega, þá sjáum við ekki að útfærslan þurfi að vera flókin. Það þarf bara að ganga í verkið því þó þetta sé kannski ekki gallalaus hugmynd, þá er hún mun betri en það ástand sem við búum núna við, sem mun skapa hér langvarandi kreppu og valda heimilismissi þúsunda.

Það er allt betra en það.

Fáum peningana aftur heim!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: