Fréttir

Peninga skortir um allt

By Miðjan

May 10, 2017

„Það er því nær alveg sama hvert litið er. Heilbrigðiskerfið, menntakerfið, almannatryggingar, eftirlitsstofnanir húsnæðismál, fæðingarorlof; það vantar meiri fjármuni og hærri laun,“ skrifar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í Morgunblaðið.

Hann tekur saman í greininni hversu mikið vantar í innviði hér á landi, að mati þeirra sem starfa þar. „Sömu sögu er að segja um listir og menningu ef litið er til umsagnar Félags íslenskra leikara og Félag leikstjóra á Íslandi sem telja að framlög „úr lista- og verkefnasjóðum til sjálfstætt starfandi sviðslistamanna eru allt of lág“. Og ekki má gleyma Ríkisútvarpinu en Rithöfundasambandið hvetur til að hið opinbera fjölmiðlafyrirtæki „fái stóraukinn stuðning til að standa undir merkjum og sinna mikilvægu hlutverki í þágu menningar“.“

Óli Björn segir að eftir sé að fjármagna uppbyggingu innviða þar sem uppsöfnuð þörf, vegna of lítilla fjárfestinga á undanförnum árum, er vart undir 250 milljörðum.