Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins, skrifar fína grein í Moggann í dag:
Á dögunum fór fram sala á 22,5% af banka til fagfjárfesta. Áður var búið að selja 35% af honum og fyrirhugað er að selja allan bankann því þá verður hann að öllu leyti í einkaeigu sem þykir ægilega gott því fyrirtæki með tugmilljarða hagnað á víst alls ekki að vera í ríkiseigu.
Þetta var spennandi tækifæri og eftirspurnin meiri en framboðið. Maður skyldi ætla að þar með fengist hærra verð fyrir bankann en við var búist, því þannig virkar lögmálið um framboð og eftirspurn. En við sem ekki erum útvalin eigum núna að skilja að markaðslögmálin eigi ekki við á markaðnum. Því þegar verið er að selja vel völdum fagfjárfestum banka er venjan að gefa afslátt af því sem margir vilja kaupa. Fjármálaráðherra hefur upplýst að markmiðið hafi ekki verið að fá hæsta verðið, heldur selja réttum aðilum. Enn er ekki ljóst hverjir þeir eru og það er ekkert víst að fjármálaráðherra fái að vita það frekar en við, því það er eins líklegt að það verði bara nöfn á einhverjum fjárfestingasjóðum sem hugsanlega heita group-eitthvað, án þess að nokkurn tímann verði gefið upp hverjir standi raunverulega á bak við þá.
Við vitum reyndar um nokkra innherja sem fengu að kaupa, en hvað gerði þá hæfa fjárfesta umfram okkur hin er ekki ljóst á þessari stundu.
Einn þeirra keypti í gegnum félag sem er með neikvæða eiginfjárstöðu upp á 135 milljónir. Annar sérvalinn snillingur rak einkahlutafélag sitt í þrot árið 2015 vegna skulda við umræddan banka en þykir samt hæfur til stjórnarsetu í honum(!). Árið 2008 fékk félag í hans eigu 233 milljónir að láni hjá Íslandsbanka (Glitni) til hlutabréfakaupa en varð gjaldþrota árið 2015 og skuldaði þá 313 milljónir. EKKERT fékkst upp í skuldirnar.
Getur verið að bankinn hafi líka lánað honum fé til hlutabréfakaupa núna?
Greinilega eru vel valdir eðalfjárfestar í þessu partíi.
Já það er aftur byrjað partí á Íslandi eins og 2007 og kannski ekki skrýtið að fjármálaráðherra fullyrði ítrekað að heimilin á Íslandi hafi aldrei haft það betra því þetta er skemmtilegt partí.
En á sama tíma berast fregnir af því að einstætt foreldri á lágmarkslaunum sé tæknilega gjaldþrota og þar vanti 83.000 í hverjum mánuði upp á að það geti framfleytt sér og að hjá pari með tvö börn sé rekstrarhallinn tæpar 90.000 á mánuði.
Ætli það sé fólkið sem mun sitja uppi með timburmennina þegar partíinu lýkur?
Mun sauðsvartur almúginn sem ekki er með í partíinu eiga að borga þrifin eins og síðast?
Flokkur fólksins segir NEI við því. Aldrei aftur!