- Advertisement -

Páll vill lög á flugvirkjana

Páll Magnússon:
Mannslíf geta verið í húfi og ábyrgð þeirra sem komið hafa málum í þessa stöðu er mikil.

Páll Magnússon Sjálfstæðisflokki óskaði eftir lagasetningu á vinnudeilu Landhelgisgæslunnar og flugvirkja, þegar hann tók til máls á Alþingi í gær.

„Það verður að gera þá skýlausu kröfu til stjórnvalda að þau höggvi á þennan hnút, ef ekki með samningum þá með lagasetningu fyrir miðnætti í kvöld. Mannslíf geta verið í húfi og ábyrgð þeirra sem komið hafa málum í þessa stöðu er mikil,“ sagði Páll. Ekki hefur samist og ekki hafa verið sett lög til að stöðva verkfall flugvirkja.

Páll sagði: „Við erum til taks. Þetta er kjörorð Landhelgisgæslunnar og blasir við á skjánum þegar farið er inn á heimasíðu hennar — nema í dag og á morgun, verður að bæta við frá og með miðnætti í kvöld. Þá verður drepið á síðustu þyrlunni og engin slík til taks næstu tvo sólarhringana. Ætli þetta sé ekki eini neyðarsíminn í heiminum, hjá þeim sem sjá um leit og björgun á fólki í lífsháska, þar sem svarið verður: Nei, því miður, það er lokað vegna vinnudeilna?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hann hélt áfram:

„Það stendur á endum, það verður lokað rétt í þann mund sem óveður gengur yfir landið. Svo dæmi sé tekið þá gæti þyrla verið eina farartækið til bjargar mannslífum í mínum heimabæ, ef svo bæri undir strax í nótt, að ekki sé talað um öryggi sjómanna á hafi úti. En eftir níu klukkutíma tekur við svarið: Nei, því miður, það er lokað, engin þyrla til taks. Þyrlur Gæslunnar fara að meðaltali í 21 útkall á mánuði. Þar af eru sjö til tíu á hafi úti eða upp á hálendið þar sem öðrum björgum verður ekki við komið. Að nákvæmlega þessi þjónusta, leit og björgun, skuli leggjast af vegna vinnudeilna er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Það verður að gera þá skýlausu kröfu til stjórnvalda að þau höggvi á þennan hnút, ef ekki með samningum þá með lagasetningu fyrir miðnætti í kvöld. Mannslíf geta verið í húfi og ábyrgð þeirra sem komið hafa málum í þessa stöðu er mikil.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: