Páll óskar rannsóknar á Ásmundi
Trúir frekar á að niðurstaðan verði órökstuddar dylgjur en rökstuddur grunur um refsibrot félaga síns.
Páll Magnússon, samþingmaður Ásmundar Friðrikssonar í suðrkjördæmi sem og í Sjálfstæðisflokknum, tók til máls á Alþingi í gær. Tilefnið var það sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði í Silfrinu á sunnudaginn.
„Hún staðhæfði að nafngreindur þingmaður lægi undir rökstuddum grun um glæp, um fjársvik,“ sagði Páll. „Nú vill þannig til að það eru hæg heimatökin hér í þinginu að ganga úr skugga um þetta því að sá grunur hlýtur þá að vera fyrir hendi hjá þeim aðila sem á að hafa eftirlit með því sem hér er á ferð, þ.e. hann hlýtur að vera fyrir hendi hjá þinginu sjálfu eða skrifstofu þess,“ sagði hann.
Páll benti á að hæg væri heimatökin. „Stjórn þingsins eða skrifstofa þingsins getur núna gengið úr skugga um það, hún getur kveðið upp úr um það, hvort þessi grunur sé fyrir hendi. Hvort fölskum faktúrum hafi verið framvísað, hvort fé hafi verið svikið út úr Alþingi með þessum hætti, hvort að slík könnun sé í gangi eða hvort fyrir liggi hjá þinginu, hjá eftirlitsaðilanum, rökstuddur grunur um að þetta hafi verið gert. Úr þessu er hægt að fá skorið hér í þinginu, hjá okkur sjálfum. Því annars er þetta ekki rökstuddur grunur háttvirtur þingmaður heldur það sem mig grunar, órökstuddar dylgjur.“
-sme