Pétur Tyrfingsson finnur að orðavali þingmannsins Páls Magnússonar, sem hefur ítrekað sagt auðlinda, sökum sjómannaverkfalls og verkbanns, liggja óbætta hjá garði.
Pétur skrifar á Facebook: „Stjórnmálamenn eru ábyrgir fyrir leiðinlegustu og vitlausustu klisjum í málæðinu sem uppi er hverju sinni….. Nýjasta klisjan er komin á flug. Páll Magnússon fer mikinn vegna sjómannaverkfalls og talar um að „auðlindin megi ekki vera óbætt hjá garði“. Hvaða rugl er þetta? Hvaða garður ætli þetta sé? Líklegt að það sé kirkjugarður. Og hverjir gátu legið óbættir utan kirkjugarðsins? Það voru dauðir bannfærðir menn sem aðstandendur höfðu ekki bætt fyrir – og fengu því að liggja utangarðs. Þeir lágu því óbættir hjá garði. – Þetta er ein kenningin um orðtakið. Og sennileg. En hvernig getur nú auðlind legið eða verið „hjá garði“ í merkingunni „utan garðs“ í einhverjum líkingarskilningi? Og í hvaða skilningi hefur ekki verið bætt fyrir hana? – Orðtak þetta hefur verið í fjölmiðlum nú í nokkra daga endurtekið án nokkurra athugasemda. Hvers vegna er maðurinn látinn bulla þetta? Páll er að kvarta yfir því að útgerðarmenn fái ekki að græða í friði – af hverju segir hann það ekki bara?“