- Advertisement -

Óvíst að Bjarni hafi þingmeirihluta

Stjórnmál Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, tekur undir með nokkrum samþingmönnunum sínum, í andstöðu við þá fyrirætlan Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um að hækka matarskattinn.

Þar með hafa það margir þingmenn Framsóknarflokksins lýst sig andsnúna breytingum, og ef fleiri bætast við, er óvíst um vilji Bjarna njóti stuðnings meirihluta Alþingis.

„Í gær hlustaði ég á umræðu um skattkerfisbreytingarnar. Þar voru þeir sem hafa gagnrýnt hækkun matarskattsins undanfarna daga m.a. sagðir popúlismar. Ég hef sett mig upp á móti hækkun á matarskatti vegna þess að ég veit að það getur verið nógu erfitt að láta enda ná saman um hver mánaðarmót, að þurfa að finna út hvort borga eigi alla reikningana eða eiga fyrir mat. Ég hef alveg verið í þeim sporum og man það vel. Ég veit að margir eru því miður í þeim sporum og ég hef verulegar áhyggjur ef breytingin verður til þess að matarkarfan hækki að staða þeirra verði enn verri. Það má bara alls ekki gerast. Ég hugsaði nú bara með mér að þeir sem láta svona orð út úr sér … hafa þeir aldrei verið í þeim sporum að hafa ekki átt í sig og á. Ég efast stórlega um það eða kannski vill fólk ekki muna það,“ skrifar Elsa Lára Arnardóttir.

Hún skipar sér þar með í hóp með þingmönnunum Karli Garðarssyni, Sigrúnu Magnúsdóttur, Haraldi Einarssyni og Vigdísi Hauksdóttir, sem sagði í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í gær að henni hugnist ekki áform um hækkun matarskatts og að þeim sem verst standi verði bætt hækkunin með styrkjum, svo sem hærri barnabótum.

Standi þingmennirnir fast á sinni skoðun fer að verða tvísýnt að Bjarni hafi þingmeirihluta fyrir breytingunum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: