Óvissuferð í boði fjármálaráðherra
- þingmenn Framsóknarflokks sauma að ráðherra, sem svarar af krafti. Segja hann tala niður krónuna.
Nokkuð var rætt á Alþingi, í gær, um hinn mikla skoðanamun, sem er milli forsætisráðherra og fjármálaráðherra, um stöðu krónunnar.
Framsóknarþingmennirnir Lilja Alfreðsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ýttu talsvert við fjármálaráðherra vegna þessa.
„Fjármála- og efnahagsráðherra þykir gaman að ræða við erlenda fjölmiðla…,“ sagði Lilja. „Í viðtali við Financial Times um helgina segir fjármálaráðherra að það sé óverjandi fyrir Ísland að viðhalda eigin fljótandi mynt nokkrum dögum eftir að fjármagnshöft hafa verið afnumin. Þessi ummæli eru með miklum ólíkindum. Eins og staðan er í dag er hæstvirtur fjármálaráðherra að bjóða upp á algjöra óvissuferð er varðar peningastefnuna og svo virðist hæstv. ráðherra ætla sér að tala gjaldmiðilinn niður á alþjóðavísu.“
„Viðtalið við FT er svo furðulegt að mér datt í hug hvort það gæti hugsanlega verið einhver meiri dýpt í þessu, hvort hæstvirtur fjármálaráðherra væri sjálfur að gera sig að einhvers konar þjóðhagsvarúðartæki sem virkar þannig að þegar krónan er sterk ætlar hann bara að mæta sjálfur og tala hana niður og svo þegar hún er veik ætlar hann að mæta sjálfur og tala hana upp. Ég er að velta fyrir mér hvort peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands viti af þessu nýja tæki ráðherrans,“ Sagði hún ennfremur.
Meira jafnvægi
„Ég hef talið að það væri farsælla fyrir Ísland að hafa aðra peningastefnu, hafa stefnu þar sem væri meira jafnvægi. Ég hef talið að það væri ekki farsælt fyrir útflutningsgreinarnar að vera með gjaldmiðil þar sem evran er á 160 kr. einn daginn, 140 kr. þann næsta og svo komin niður í 112 kr., fer svo upp í 124 kr. og sveiflast fram og til baka, þannig að þeir sem eiga viðskipti í þessari mynt vita aldrei daginn eftir hve mikið þeir fá fyrir sinn snúð. Ég geri enga athugasemd við það að aðrir kunni að hafa aðrar skoðanir á því. Þannig er lýðræðið. Þannig verða skoðanaskipti,“ sagði Benedikt.
Hugmyndin sótt til Austur-Þýskalands?
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er ekki sáttur með hvernig ráðherrann talar. Hann kom víða við.
„Ég hef nefnilega einu sinni áður heyrt nákvæmlega sömu röksemdafærslu og það var hjá Erich Honecker, leiðtoga Austur-Þýskalands, þegar hann útskýrði að það væri algjörlega óviðunandi að gjaldmiðillinn, austur-þýska markið, flyti upp og niður, menn vissu ekkert hvers virði það yrði næstu daga,“ sagði Sigmundur Davíð. „Þess vegna þyrftu menn að hafa ákveðnar reglur um það hvert gengi þess gjaldmiðils ætti að vera. Ég held að hæstv. ráðherra sé nógu fróður um söguna til þess að vita hvernig það fyrirkomulag virkaði. Það að heyra hér formann flokks, sem hefur verið talinn hægri flokkur, einhvers konar frjálslyndur hægri flokkur, boða austur-þýsku stefnuna í peningamálum kemur mér vægast sagt í opna skjöldu.“
Benedikt skýtur til baka
„Það er fróðlegt að heyra háttvirtan þingmann fjalla um gengisstefnuna í Austur-Þýskalandi,“ sagði Benedikt Jóhannesson og skaut á Sigmund Davíð. „Það er líka fróðlegt að bera umræðuna í dag saman við hans fyrri áform um að taka upp norska krónu, þegar við áttum að fá 2 þús. milljarða lán frá Noregi fyrir átta árum eða svo og þegar við áttum nokkrum árum síðar að taka upp Kanadadollar. Hvaða stefna var það? Átti þá að festa krónuna við einhverja útlenda mynt? Það var talið alveg sérstaklega hagstætt fyrir Íslendinga. Ég hef margoft sagt að það er afar vitlaus stefna að taka upp Kanadadollar eða norska krónu. Það sagði ég líka við þennan útlenda fjölmiðil.“