„Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið,“ segir í nýrri Moggagrein sem Jón Ólafur Halldórsson, formaður Samtaka verlsunar og þjónustu, og Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar, skrifuðu.
„Einstaklingar og fyrirtæki eru um þessar mundir að velta fyrir sér hvernig sé skynsamlegt að haga sér við fjárfestingu í ökutækjum á næsta og þarnæsta ári. Hvaða bíla geta söluaðilar boðið upp á? Hvað munu bílar kosta? Hvað mun kosta að reka bíla? Er e.t.v. skynsamlegra að fjárfesta í bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti þar til framtíðin verður skýrari? Þetta eru stórar spurningar en svörin fá í þeirri óvissu sem nú er uppi. Undirbúningur fjárlaga hefst að jafnaði að vori og því hlýtur að vera unnt að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi sig, vandi undirbúning og kynningu, svo fyrirsjáanleiki verði tryggður.“