- Advertisement -

Óvelkomnu ferðamennirnir

„Ég hef líka heyrt frá ferðamálafrömuðum að þetta eru ekki vinsælustu ferðamennirnir. Þeir eru öðruvísi en þeir sem koma með flugi, þeir fara oft bara yfir í skip aftur til þess að borða og versla lítið, þannig að þeir eru kannski ekki beint vinsælastir. Þetta er mjög snúið og ég fagna því að það sé verið að vinna í þessum málum,“ sagði Álfheiður Eymarsdóttir, þingmaður Pírata á Alþingi, þegar rætt var um komu skemmtiferðaskipa og þann fjölda ferðamanna sem kemur með þeim.

„Þá getur verið töluvert álag á lítil samfélög að fá jafnvel til sín skip þar sem farþegafjöldinn er meiri en íbúafjöldi staðarins. Einnig verð ég að nefna dæmi þess að skip séu jafnvel að hleypa farþegum í land utan hafna og í sumum tilfellum inn á viðkvæm svæði,“ sagði Albertína Fribjörf Elíasdóttir Samfylkingu, sem hóf umræðuna.

„Næsta sumar munu suma daga verða allt að átta þúsund farþegar frá skemmtiferðaskipum á Ísafirði. Það segir sig sjálft að slíkir dagar reyna á þolmörk allra; farþega, þjónustuaðila og bæjarins sjálfs. Innviðir svæðisins eru einfaldlega ekki búnir undir slíkan fjölda og eiga ekki endilega að vera það miðað við stærð sveitarfélags. Þess vegna er mikilvægt að ákvörðunin sé upplýst um að leggja áherslu á markaðssetningu sem miðar að því að laða að erlend skemmtiferðaskip og að allir aðilar séu meðvitaðir um þær áskoranir sem því fylgja,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra.

„Ég get með ánægju sagt að von er á skýrslu um þolmörk ferðamennsku nú á allra næstu dögum sem ég mun leggja fyrir Alþingi. Í þeirri skýrslu er farið ítarlega yfir ekki eingöngu náttúruleg þolmörk heldur einnig samfélagsleg og þau endurteknu stef sem skjóta upp kollinum í umræðu um þau. Umfjöllun um skemmtiferðaskip verður því þar á meðal. Það eru nákvæmlega þessir þættir sem koma sérstaklega til skoðunar þegar við ræðum skemmtiferðaskipin. Áfangastaðir þeirra eru oftar en ekki lítil bæjarfélög sem hafa mismikla burði til að taka á móti því mikla innflæði ferðamanna sem þeim fylgir. Síðastliðin ár hafa stjórnvöld lagt áherslu á aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur allt árið um kring. Það er mikilvægt að létta álagi af öðrum svæðum, ekki síður til að fáfarnari svæði njóti í meira mæli þess ávinnings sem fylgir ferðamönnum. Um það erum við nú öll sammála,“ sagði ráðherra.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: