Óvænt innsýn í spillingu Valhallar
Rótgróin spilling er á flestra vitorði. Miðjan hefur fjallað um þá spillingu sem Gunnar Thoroddsen upplýsti og Guðni Th. Jóhannesson skrifaði um. Borgarstjóratíð Gunnars einkenndist mest af spillingu. Njósnað var um það fólk sem ekki gekk Sjálfstæðisflokki á hönd. Flokksmenn fengu vinnu og lóðir frekar en andstæðingarnir.
Styrmir Gunnarsson er svo elskulegur að rifja upp annað sjónarhorn á spillinguna og hvernig þess var gætt að missa ekki tökin. Missa ekki forréttindin.
Styrmir skrifar: „Það eru sennilega um 65 ár síðan fyrst var hreyft hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þær snerust um sameiningu Reykjavíkur og Kópavogs. Þá leizt sjálfstæðismönnum í Reykjavík ekki á þá hugmynd og töldu að hætta væri á að þá mundi meirihluti þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur falla.“
Ljóst að aðeins eitt sjónarmið réði. Hagur Sjálfstæðisflokksins.
Styrmir skrifar: „En auðvitað hefur alltaf verið ljóst að í raun rís andstaðan frá þeim, sem telja sig missa spón úr aski sínum, hvort sem eru fulltrúar í mörgum sveitarstjórnum, nefndum eða ráðum eða æðstu embættismenn á hverjum stað.“
Fínt að fá staðfest. „En nú má sjá svipaðar röksemdir og fyrir 65 árum. Nú eru það sjálfstæðismenn í nágrannasveitarfélögum sem vilja ekki lenda undir „stjórn Dags“,“ skrifar Styrmir.
Styrmir leggur sína merkingu á stöðuna: „Er það ekki vísbending um að þeir hinir sömu hafi gefið upp alla von um að Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti meirihluta sinn í Reykjavík? Og hvaða sögu segir það um þann flokk?“
Enn er ekkert fjallað um hvað fólki eða sveitarfélögunum kemur best. Bara flokknum. Og það á eftir að aukast:
„En gæti ekki einmitt verið að sameining auki möguleika Sjálfstæðisflokksins á að endurheimta meirihlutann í borgarstjórn? Stórir hópar stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hafa flutt til nálægra sveitarfélaga. Sjálfstæðismenn ættu að hugleiða þennan möguleika áður en þeir snúast gegn sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“
Má ekki lesa úr þessu að Sjálfstæðisflokkurinn er frekar hagsmunahreyfingin er stjórnmálaflokkur?