Óvænt heimboð í hugarheim þingmanns
„Freistingin sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir er mikil. Áhættan er hverfandi en vonin um ávinning er töluverð.“
„Það er eðli stjórnmálamanna að tryggja eins vel og kostur er að þeir nái endurkjöri. Með loforðum, fyrirheitum og heitstrengingum er reynt að vekja vonir og væntingar í brjósti kjósenda og auka þar með líkurnar á endurkjöri,“ skrifar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjáflstæðisflokksins, í Mogganum í dag, í grein þar sem hann býður okkur í heimsókn í hugarfar sitt.
Þetta er fágætt tækifæri sem við fáum ekki oft, kannski aldrei aftur. Óli Björn telur hann ekki einan, meðal stjórnmálamanna, hvað þetta varðar og ekki er sýnileg ástæða til að efast um það.
Best að halda áfram að skoða hið opna hugarfar þingmannsins: „Stjórnmálamaður sem engu lofar um aukin útgjöld og gefur lítil fyrirheit á takmarkaða möguleika á að fanga athygli fjölmiðla. Vegna þessa verður til eins konar uppboðsmarkaður loforða. Raunar eru uppboðsmarkaðirnir margbreytilegir, allt frá einstökum byggðarlögum til kjördæma, frá ungum kjósendum til eldri borgara, frá verkalýðshreyfingunni til atvinnugreina og jafnvel einstakra fyrirtækja,“ skrifar hann.
Freistingin mikil, áhættan hverfandi
„Freistingin sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir er mikil. Áhættan er hverfandi en vonin um ávinning er töluverð,“ skrifar Óli Björn, sem hefur mikla reynslu af atkvæðaveiðum.
„Þess vegna eru loforð gefin, kosningavíxlar slegnir, viljayfirlýsingar undirritaðar, þingsályktanir lagðar fram, frumvörp kynnt. Í samkeppninni um atkvæði freistast stjórnmálamenn og ekki síst ráðherrar til að lofa því sem þeir geta ekki staðið við, gefa út víxla sem aðrir eiga að greiða, leggja fram tillögur sem hafa lítið gildi og kynna frumvörp sem þeir hafa lítinn eða engan áhuga á að nái fram að ganga.“
Óli Björn vill gera fjölmiðla samseka stjórnmálamönnunum. „Ég hef áður haldið því fram að fjölmiðlar gefi stjórnmálamönnum tækifæri til að gefa loforð og hafa uppi stór orð sem lítil eða engin innistæða eru fyrir. Stjórnmálamaður sem lofar auknum útgjöldum, stórbættri opinberri þjónustu, fær yfirleitt hljóðnema fjölmiðlanna og frið til að flytja boðskapinn. Sá er berst fyrir lækkun skatta er hins vegar krafinn svara við því hvernig hann ætli að „fjármagna“ lækkun skatta. Og það er eins gott fyrir þingmann sem vill draga úr umsvifum ríkisins – minnka báknið – að vera tilbúinn til að svara hvernig í ósköpunum honum komi slíkt til hugar.“
Verðum að lækka skatta
Í lok greinarinnar hugsar Óli Björn til komandi þings: „Þegar þing kemur saman eftir tæpar þrjár vikur verðum við, sem viljum draga úr umsvifum ríkisins, lækka skatta á almenning og fyrirtæki og ýta undir framtaksmennina svo þjóðarkakan stækki, í minnihluta, eins og oftast áður. Við getum ekki reiknað með að fjölmiðlar eða sterkir sérhagsmunahópar veiti okkur stuðning. Að þessu leyti er við ramman reip að draga. En það er fráleitt að gefast upp. Í þessum efnum holar dropinn steininn.“
„Þess vegna eru loforð gefin, kosningavíxlar slegnir, viljayfirlýsingar
undirritaðar, þingsályktanir lagðar fram, frumvörp kynnt.“