Vinnumarkaður Elsa Lára Arnardóttir Framsóknarflokki nefndi í dag á Alþingi, að samningar Landsvirkjunar við stóriðjufyrirtækin á Grundartanga. „Mikil óvissa ríkir núna þar sem hnútur virðist vera í viðræðum aðila. Mikilvægt er að úr leysist sem allra fyrst því þarna er um að ræða upp undir tvö þúsund störf á Grundartangasvæðinu og svæðinu allt um kring. Starfsemi þessara fyrirtækja hefur jákvæð áhrif á margvíslega þjónustu víðs vegar á Vesturlandi og þó víðar væri leitað.“
Krafa Landsvirkjunar er ógn
Vilhjálmur Birgisson, sveitungi Elsu Láru og formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur skrifað um þetta sama efni. „Það er óhætt að segja að mann setji hljóðan og fái kaldan hroll þegar manni berst það til eyrna að verið sé að ógna uppundir 2000 störfum félagsmanna VLFA sem starfa hjá Norðuráli og Elkem Ísland á Grundartanga. En rétt er að geta þess að þúsundir fjölskyldna hér á Akranesi og nágrenni eiga allt lífsviðurværi sitt undir þessum fyrirtækjum. Málið er að árið 2019 rennur út raforkusamningur Landsvirkjunar við bæði Norðurál og Elkem og heimildir mínar herma að Landsvirkjun fari fram á gríðarlega hækkun á raforku til þessara fyrirtækja. Það liggur fyrir að með slíkri hækkun verði öllum rekstrargrundvelli kippt undan þessum fyrirtækjum sem eðli málsins samkvæmt ógnar áðurnefndum störfum illilega.“
Árás Landsvirkjunar á stóriðju
Vilhjálmi er heitt í hamsi. „Andúð forstjóra Landsvirkjunar í garð stóriðjufyrirtækja fer vart framhjá neinum sem fylgist með umræðu um stóriðjur hér á landi. Hún er reyndar alveg mögnuð þessi árás sem stóriðjurnar þurfa ætíð að þola þar sem það virðist vera lögmál að vera á móti stóriðjufyrirtækjunum og það virðist vera inni hjá tilteknum hópi að vera á móti þeim þó oft á tíðum liggi engin haldbær rök þar að baki.“
Vilhjálmi er ekki skemmt: „Ætla sveitastjórnir og stjórnvöld að leyfa forsvarsmönnum Landsvirkjunar að ógna lífsafkomu og atvinnuöryggi heilu byggðarlaganna með því framferði sínu að krefjast gríðarlegrar hækkunar á raforkuverði sem ógnar atvinnuöryggi þúsunda launamanna. Halda menn eina einustu mínútu að atvinnuöryggi þúsunda manna væri ekki ógnað ef rekstrarskilyrði hér á landi gagnvart stóriðjufyrirtækjum yrði mun verra en í þeim löndum sem við erum að keppa við að fá til okkar vegna atvinnuuppbyggingar.“