- Advertisement -

Ótrúleg vanþekking utanríkisráðherra

Íslensk heimili myndu spara 150.000 á hverjum mánuði væri málum hagað með öðrum hætti.

Ágúst Ólafur Ágústsson.
„Stærstu fyrirtæki landsins, þar með talin sjávarútvegsfyrirtæki, hafa fyrir löngu yfirgefið krónuna og íslenska vexti.“

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í gær að upptaka evrunnar, ein og sér myndi þýða tugmilljarða króna ávinning á hverju einasta ári. „Ef við værum með evrópskt verð á peningum og norrænt verð á matvælum myndi sérhvert íslenskt heimili spara 150 þúsund krónur á mánuði,“ sagði þingmaðurinn.

„Ég vil einnig árétta að rétturinn til nýtingar sjávarauðlindarinnar mun ekki breytast við inngöngu í ESB, m.a. út af reglunni um veiðireynslu,“ bætti hann við.

Ágúst Ólafur var hvergi nærri hættur og efaðist um nákvæmni Guðlaugs Þór Þórðarsonar utanríkisráðherra: „Á sínum tíma fékk ég staðfest frá einum af framkvæmdarstjórum ESB að Ísland er að taka upp um 75 prósent af meginlöggjöf ESB nú þegar. Það sýnir ótrúlega vanþekkingu hjá utanríkisráðherra Íslands að tala um að við séum einungis að taka upp um 13 prósent af löggjöf ESB. Heldur ráðherrann að 87 prósent af ESB sé sjávarútvegur og landbúnaður? Það eru þau meginsvið sem eru fyrir utan EES. Heldur ráðherrann að regluverk fjórfrelsisins um frjálsa för fólks, fjármagns, vöru og þjónustu sé einungis 13 prósent af ESB og Evrópusamstarfinu?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og að lokum kom þetta: „Stærstu fyrirtæki landsins, þar með talin sjávarútvegsfyrirtæki, hafa fyrir löngu yfirgefið krónuna og íslenska vexti. Á meðan eru íslensk heimili og venjuleg fyrirtæki látin sitja uppi með einn sveiflukenndasta gjaldmiðil í heimi og vexti á sterum,“ sagði Ágúst Ólafur.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: