Við lestur eldri blaða er margt að finna. Sumt vekur forvitni eða jafnvel hneykslan. Svo er um það mál sem hér fer á eftir. Það var seint á árinu 1936 sem upp um þetta hræðilega mál komst.
„Réttarhöld, sem staðið hafa yfir hér og á Eskifirði, út af hvarfi og dauða stúlku frá Eskifirði, Halldóru Bjarnadóttur, hafa leitt í ljós, að stúlkan hefur sætt hroðalegri og svívirðilega illmannlegri meðferð hjá húsbændum sínum.“
Í fréttinni segir að mörg vitni hafa borið fyrir rétti, að Halldóra hafi verið svelt, barin, lokuð inni og misþyrmt á ýmsan hátt á meðan hún dvaldi sem vinnustúlku hjá hjónunum, Jóni Erlendssyni, og konu hans, Ásthildi Guðmundsdóttur; fyrst í Reykjavík og síðan á Eskifirði.
„Lögreglan skýrir frá því, að í bókum lögreglunnar hafi aldrei komið fyrir ljótari lýsing á heimilislífi, eins og það sem bókað hefir verið eftir vitnunum í þessu máli,“ segir í frétt Morgunblaðsins frá 9. október 1936.
Lesum áfram: „Eitt aðalvitnið er bróðir Jóns Erlendssonar, Erlendur. Hann hefir dvalið á heimilinu bæði hér í Reykjavík og á Eskifirði. Erlendur var fluttur hingað til yfirheyrslu frá Litla-Hrauni, en þar hefir hann verið að afplána dóm fyrir þjófnað.“
Slæm sambúð hjónanna
Erlendur bar fyrir rétti að heimilislífið á heimili þeirra Jóns og Ásthildar hafi verið agalegt. Hjónin hafi sífellt rifist og slegist. Ber hann sérstaklega mágkonu sinni illa söguna. Hann sagði að meðferðin á Halldóru heitinni hafi verið voðaleg; að hún hafi verið afar hrædd við hjónin og ekki þorað annað en að sitja og standa eins og þau sögðu henni.
„Halldóra hafi verið ístöðulítil. Hún hefði oft kvartað yfir meðferðinni á sér og talað um að fara frá þeim hjónum, en aldrei orðið neitt úr því sökum kjarkleysis.“
Matarlaus og lokuð inni
Erlendur sagði enn fremur, að Halldóra hafi ekki fengið nægju sína að borða. Ásthildur skammtaði henni matinn og iðulega kom það fyrir að hún fékk henni annan og verri mat en öðru heimilisfólki. Milli máltíða var maturinn lokaður inni í skáp, og kæmi það fyrir, að maturinn væri skilinn eftir þar, sem Halldóra gat náð í hann, var hún barin og refsað með því, að hún fékk engan mat næstu máltíð.
Í sumar fóru hjónin og öll fjölskyldan í skemmtiferð frá Eskifirði til Reyðarfjarðar. Voru þau fjarverandi heilan dag.
Á meðan þau voru fjarverandi, skildu þau Halldóru eftir í húsinu eina.
Læstu þau hana inni í herbergi matarlausa og allslausa og negldu síðan hurðina aftur með tveggja tommu nöglum. Seint um kvöldið, þegar þau komu heim, var Halldóru loks sleppt út úr herberginu.
Barin daglega
Þráfaldlega var Halldóra barin og hún beitt öðru ofbeldi á heimilinu. Ásthildur barði hana svo að segja daglega og Jón Erlendsson lék sér að því að taka í Halldóru og hrista hana.
Halldóru var meinað að tala við fólk utan heimilisins. Skömmu áður en hún réðist til Ásthildar og Jóns, eignaðist hún barn, og kom því í fóstur. Henni var bannað að tala við barn sitt eða sjá það.
Í fréttinni segir næst: „Sem vitni í þessu máli hafa mætt tvær konur, sem Ásthildur og Jón leigðu hjá.
Ber þeim saman um að Halldóra hafi verið mjög illa haldin á heimilinu og að þeim hafi verið meinað að tala við hann.
Fjórða vitnið, María Jónsdóttir, sem hafði fóstrað barn Halldóru bar, að hún hafi verið svelt og henni misþyrmt. Einnig að upp á síðkastið hafi Halldóru verið ófrjálst að sjá barn sitt og verið haldið frá því.“
Áfram skal haldið: „Eitt vitni, sem lögreglan telur þýðingarmikið og gæti gefið miklar upplýsingar um meðferð Halldóru, hefir ekki verið yfirheyrt, þar sem ekki hefir náðst til þess enn þá.
Um sjálft hvarf Halldóru, hefir ekkert upplýst enn þá, en Jón Erlendsson, var fyrir nokkru úrskurðaður í gæsluvarðhald. En hann veiktist í varðhaldinu, og var honum, að fengnu læknisvottorði, sleppt úr haldi í fyrradag.
Halldóra hvarf á Eskifirði 16. sept., en lík hennar fannst 14 dögum síðar í sjónum nálægt bryggju á Eskifirði.
Dauðaorsökin óupplýst
Yfirheyrslur út af hvarfi Halldóru Bjarnadóttur byrjuðu skömmu eftir að hún hvarf. Í þrjá daga, eftir að síðast sást til hennar, var hennar leitað, árangurslaust.
Það síðasta sem til hennar spurðist í lifanda lífi var, að stúlka ein sá hana snemma morguns, kl. að ganga sex þann 1 6. sept. og gekk Halldóra þá vestur eftir aðalgötu kaupstaðarins. Stúlkan, sem sá til hennar, gat lýst klæðaburði hennar allnákvæmlega, og var klæðnaðurinn sá sami á líkinu er það fannst við svonefnda Framkaupstaðarbryggju, 14 dögum síðar.
ottorð læknanna tveggja, Guðmundar Guðfinnssonar og Einars Ástráðssonar, er rannsökuðu líkið, sker ekki úr um það, að dauðaorsök stúlkunnar hafi verið drukknun, né að líkið hafi legið í sjónum þennan tíma frá því hún hvarf, eða í 14 daga . En læknar þeir, er framkvæmdu líkskoðunina gáfu vottorð, sem er svohljóðandi:
Vottorð læknanna
„Finnst engin ákveðin dauða orsök önnur en köfnunardauði. Drukknun engan veginn útilokuð. Áverkann á gagnauga hægra megin má telja stúlkuna hafa fengið í lifanda lífi, skömmu fyrir dauða, en hann mundi engan veginn hafa getað orðið beint dauðaorsök. Af finnanlegum Kigor mortis um olnbogaliði og öðru útliti líksins þykir ósennilegt, að líkið sé eldra en fjögurra til fimm sólarhringa, en um slíkt verður ekki sagt með neinni vissu og jafnvel ekki útilokað að líkið geti verið fjórtán daga gamalt.“
Nánari rannsókn á líkinu hefir verið falin Rannsóknarstofu Háskólans, en gögn í því máli eru ekki komin hingað að austan, koma ekki fyrr en með Esju.“