Með öðrum orðum fjármálaráðherra ætlar að svíkja loforð sem ríkisstjórnin gerði samhliða lífskjarasamningum.
Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Enn og aftur virðist vera að stjórnvöld ætli að svíkja gefin loforð um að stíga þétt skref í átt að afnámi verðtryggingar.
Ein af aðalástæðum þess að okkur tókst að ganga frá lífskjarasamningum sem undirritaður var 3. apríl 2019 var skrifleg yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í sjö liðum um að stígið yrði kröftug skref til afnáms verðtryggingar.
Rétt er að geta þess að ég leiddi viðræður um yfirlýsingu stjórnvalda um afnám verðtryggingar fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar og var m.a. í beinu sambandi við fjármálaráðherra um útfærslu á yfirlýsingunni.
Nú hefur komið í ljós að enn og aftur að allt stefnir í að það eigi að svíkja þetta loforð, en í þriðja lið í yfirlýsingunni segir orðrétt:
„Frá og með ársbyrjun 2020 verði óheimilt að veita verðtryggð jafngreiðslulán til neytenda til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Rökin fyrir þessu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána að verðbótum er bætt við höfuðstól lánsins og greiðslu þeirra frestað þannig að eignamyndun verður hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast.“
Enn bólar ekkert á frumvarpi um bann við 40 ára jafngreiðslulánum en bannið átti að taka gildi frá síðustu áramótum. Hins vegar veit ég til þess að fjármálaráðherra hefur í hyggju að leggja fram frumvarp þar sem undanþágur verði með þeim hætti að nánast allir sem vilja geta haldið áfram að taka þessi 40 ára lán.
Með öðrum orðum fjármálaráðherra ætlar að svíkja loforð sem ríkisstjórnin gerði samhliða lífskjarasamningum.
Það er rétt að geta þess að í kosningunum 2013 var einnig lofað að afnema verðtryggingu á neytendalánum en þá voru framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn saman í ríkisstjórn en sú ríkisstjórn skipaði sérfræðingahóp um afnám verðtryggingar árið 2013 og komst sá sérfræðingahópur að þeirri niðurstöðu að það yrði að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán vegna þess að þau væru baneitraður kokteill og lagði sérfræðingahópurinn til að þessi lán yrðu bönnuð frá og með 1. janúar 2015.
Þetta var að sjálfsögðu svikið og núna ætla sömu flokkar þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkurinn enn og aftur að svíkja undirritaða yfirlýsingu um bann við þessum eitraða kokteil sem 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán eru.
Það er löngu orðið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vílar ekki fyrir sér að svíkja gefin loforð eins og enginn sé morgundagurinn þegar kemur að hagsmunum alþýðunnar. Það er hins vegar sorglegt að framsóknarflokkurinn ætlar enn og aftur að hlýða Sjálfstæðisflokknum eins og þægur heimilishundur.
Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn svíki þetta loforð, enda eru þeir og hafa alltaf verið helstu varðhundar fjármagnsins á kostnað alþýðunnar en að framsóknarflokkurinn skuli enn og aftur láta rassskella sig í verðtryggingarmálunum er rannsóknarefni.
Held að það þýði lítið fyrir Framsóknarflokkinn að kaupa dýrar auglýsingar fyrir næstu kosningar í ljósi þessara svika enn og aftur!
Það er hins vegar orðið ljóst að þessi svik ásamt fleiri atriðum geta sett lífskjarasamninginn í uppnám þegar kemur að endurskoðun í september á því hvort segja eigi samningum upp.
Það er allavega gjörsamlega óþolandi og ólíðandi að stjórnmálamenn geti komist síendurtekið upp með að svíkja gefin loforð án þess að slíkt hafi afleiðingar í för með sér.