Óþolandi leyndarhyggja ríkisstjórnarinnar
Þingmaður hefur margspurt, en fær engin svör. „Ég hef áður bent á það hér að ríkisstjórnin dekrar við vogunarsjóðina.“
„Þessi leyndarhyggja ríkisstjórnarinnar í málefnum Arion banka er óþolandi. Þetta eru hagsmunir almennings. Það er verið að sniðganga eftirlitshlutverk Alþingis. Er þarna eitthvað sem þolir ekki dagsljósið?“
Þannig mæltist Birgi Þórarinssyni Miðflokki í ræðustól Alþingis. Hann gerði enn aftur að umtalsefni afstöðu ríkisvaldsins til Arionbanka.
„Á vef Stjórnarráðsins var í lok febrúar birt frétt um fjárhagslegan ávinning ríkissjóðs vegna Kaupþings Arion banka. Í fréttinni er sagt að ávinningurinn sé rúmir 150 milljarðar. Þarna er liður sem kallaður er matsvirði stöðugleikaeigna. Þar kemur fram að áætlað verðmæti vegna afkomuskiptasamnings Arion banka sé 19,5 milljarðar. Þarna er einnig annar liður sem nefndur er aðrar eignir og hljóðar upp á 23,8 milljarða. Þetta eru samtals 43,3 milljarðar.“
Komið fram yfir alla fresti
Birgir sagðist hafa ítrekað reynt að fá nánari upplýsingar um upphæðirnar, en án árangurs. „Það er komið á annan mánuð síðan ég óskaði eftir þessum upplýsingum. Það er komið langt fram yfir alla fresti. Það er brýnt að fá að vita hvað liggur að baki þessum upphæðum, hvort þær séu raunhæfar. Þetta eru verulegar fjárhæðir og það er ekki boðlegt að þessu sé bara hent fram án nokkurra útskýringa.“
Síðan sagði Birgir í spurningatón: „Er það kannski svo að ekkert er að marka þessar upphæðir sem ríkissjóður á að fá fyrir söluna á Arion banka og hæstvirtur forsætisráðherra er svo ánægð með? Ég hef áður bent á það hér að ríkisstjórnin dekrar við vogunarsjóðina í Arion banka eins og óþekkan krakka. Ríkisstjórnin seldi hlutabréfin á undirverði, lækkaði bankaskattinn á vogunarsjóðina um milljarða og núna síðast á að falla frá forkaupsrétti.“
Forsætisráðherra heitt í hamsi
Hann hélt áfram og sagði: „Ég spáði því hér í ræðu minni fyrir nokkru að ríkisstjórnin myndi falla frá forkaupsrétti. Fyrir það þrætti hæstvirtur forsætisráðherra og var heitt í hamsi. Annað er að koma á daginn samkvæmt nýjustu fréttum. Fréttablaðið fullyrðir að ríkið sé að falla frá forkaupsrétti. Ég spurðist fyrir um þetta í efnahags- og viðskiptanefnd og fékk engin svör. Þessu var heldur ekki hægt að svara á fundi fjárlaganefndar í morgun.“
„Þessi leyndarhyggja ríkisstjórnarinnar í málefnum Arion banka er óþolandi. Þetta eru hagsmunir almennings. Það er verið að sniðganga eftirlitshlutverk Alþingis. Er þarna eitthvað sem þolir ekki dagsljósið?“ Þannig endaði Birgir Þórarinsson.