Óþarfa fimm vikur í verkfalli
- formaður VM segir sjómannaverkfallið hafa varað fimm vikum og lengi. Segir sjómenn hafa skaðast af töfinni.
Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður VM, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir verkfall sjómanna hafa staðið allof lengi og hægt hefði verið að semja mun fyrr en gert var.
„Verkfallið var fimm vikum of langt. Eftir að hafði tekist að fá nánast allt, sem síðan var í samningnum, það er fimm vikum áður en skrifað var undir, vil ég meina að við sköðuðum okkar umbjóðendur, ekkert minna en atvinnurekendur, til dæmis vegna markaðsmála.“
Hann segir að kröftunum hafi verið dreift og víða og samkeppni milli stéttarfélaga hafi orðið um kröfur. „Samkeppni um félagsmenn endurspeglaðist í því, með yfirboðum.“
„Við vorum í kjaradeilunni á allra versta tíma sem hugsast getur. Okkar aðal krafa í boðuðum aðgerðum var að gera breytingar á verðlagsmálunum og við fengum hana fram. Það má heldur ekki loka augunum fyrir því að það hafði safnast upp mikil óánægja og spenna vegna verðlagsmálanna og annarra þátta eftir að vera búnir að vera svo lengi með lausa samninga frá 2011 og hún braust út í þessari deilu. Ef útgerðirnar læra ekki af því þá verður bara harðari slagur næst.
Við og sumir að forystumönnum Sjómannasambandsins áttuðum okkur á, að vegna gengis krónunnar, er staða tveggja útgerðarþátta eiginlega kominn á núllið. Það eru línuskipin og frystitogararnir. Það var ekki mikið svigrúm til að hækka launakostnað á þessi skip. Auðvitað verðum við að skoða þetta ábyrgt. Það er bara þannig.“
Því miður er staðan að verða þannig í dag vegna krónunnar að erfitt er að fá menn á skip í sumum útgerðaflokkum.“
Voru þá einhverjir úr röðum forystu sjómanna óbilgjarnir?
„Óbilgirni og ekki óbilgirni. Ég hef sagt á fundum í VM, hringinn í kringum landið síðastliðinn fjögur ár, vegna verðlagsmálanna, sem hafa verið mikið í umræðunni að við hefðum átt að taka slaginn við útgerðarmenn meðan veislan stóð sem hæst. Þá mátti enginn vera að því. Það var svo gaman að þéna peninga. Við verðum líka að vera gagnrýninn á okkur sjálf og læra af reynslunni. Við þurfum að vera klókir í okkar aðgerðum og tímasetja þau rétt.