Óþægilegur raunveruleiki
- Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur tekið saman hryðjuverkaárásir í Evrópu frá árinu 2015.
Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefur tekið saman hryðjuverkaárásir í Evrópu frá árinu 2015, og birtir á Facebook. Hér fer samantekt Jónu Sólveigar.
Raunveruleikinn er oft óþægilegur. Samantekt Spegilsins á hryðjuverkaárásum sem átt hafa sér stað hér í Evrópu frá árinu 2015, að viðbættum 3. júní sl. (þættinum var útvarpað á Rás 1 23. maí sl.), lítur svona út í stikkorðastíl:
7. janúar 2015 – Charlie Hebdo árásin í París, 12 drepnir.
14. febrúar 2015 – hryðjuverkaárás í Kaupmannahöfn, 2 drepnir og 5 lögreglumenn særðir.
13. nóvember 2015 – hryðjuverkaárás í París (Bataclan tónleikahöllin), 130 létust og fleiri hundruð særðir.
22. mars 2016 – sprengjuárásir á flugvelli og lestarstöð í Brussel, 32 létust og yfir 300 særðust.
Júlí 2016 – nokkrar árásir í Þýskalandi, 4 drepnir í 5 árásum.
14. júlí 2016 – vörubíl ekið inn í göngugötu í Nice í Frakklandi, 84 drepnir, yfir 100 særðir.
26. júlí 2016 – ráðist inn í kirkju í Normandí í Frakklandi, 1 prestur skorinn á háls og gíslar teknir. Árásamennirnir skotnir.
3. febrúar 2016 – ráðist á hermenn með hnífi í París. Árásarmaðurinn var skotinn.
22. mars 2016 – hryðjuverkaárás á Westminster brúnni í London, 4 létust og 40 særðir.
7. apríl 2017– hryðjuverkaárás á verslunargötu í miðborg Stokkhólms, 4 létust og 15 særðir.
13. apríl 2017– Dortmund í Þýskalandi, þreföld sprengjuárás á fótboltaleik.
20. apríl 2017 – París, ráðist á lögreglu, 1 drepinn og 2 særðir
22. maí 2017 – sprengja – sjálfsvígsárás á tónleikum í Manchester, 22 látnir og 59 særðir.
3. júní 2017 – árás á Lundúnabrúnni, 8 látnir og 48 særðir.
Hvað eiga þessar hryðjuverkaárásir síðustu tveggja ára sameiginlegt? Fáir hryðjuverkamenn að verki, stundum bara einn. Einnig er árásunum eiginlega alltaf beint gegn almennum borgurum, en yfirleitt ekki gegn löggæsluyfirvöldum eða stjórnvöldum.
Löggæsluyfirvöld í nágrannaríkjum okkar hafa aukið viðbúnað til að geta brugðist hratt og örugglega við ef eitthvað skyldi gerast til að lágmarka skaðann.
Í ljósi þessara upplýsinga, og í anda þess að kallað er eftir opinni umræðu um sýnilega viðveru sérsveitarmanna, sem eru vel að merkja einu lögreglumennirnir sem mega bera vopn utan á sér, langar mig að spyrja: Finnst fólki eðlilegt eða óeðlilegt að löggæsluyfirvöld á Íslandi auki viðbúnað á fjöldasamkomum á Íslandi?
Finnst fólki óþægilegt að hafa sjálfa sérsveitarmennina nálægt sér vegna þess að þeir eru vopnaðir, eða er það vegna þess að þeir minna fólk á þessar árásir sem taldar voru upp hér að ofan? Ef hið fyrra, er það vegna þess að fólk treystir ekki íslensku sérsveitinni? Ef hið síðara, er það þá nóg til að við eigum að láta hjá líða að auka viðbúnað á fjöldasamkomum?