- Advertisement -

Ósvífni Sjómannafélags Íslands

„...að það verði enginn, sem ekki er handvalinn í stjórn, sem fái að komast í gögn félagsins.“

Heiðveig María Einarsdóttir er ósátt eftir að framboðslisti hennar til stjórnar Sjómannafélags Íslands var sagður ógildur.

„Niðurstaðan er algjörlega sláandi á svo hrikalega ósvífinn hátt að maður verður hugsi yfir vinnubrögðum kjörnefndarinnar; þegar lögfræðingur sem starfar hjá sömu stofu og rekur mál gegn mér fyrir hönd félagsins, fyrrverandi alþingismaður og samstarfsfélagi í stéttinni túlka lögin á þennan hátt spyr maður hvernig siðferðið hafi hingað til verið hjá þeim þegar þeir hafa sinnt sínu starfi?

Hvað með að fylgja almennum kosningalögum sem hafa ætti til viðmiðunar? Þar skal fulltrúum allra lista leyft að sækja fund, mótmæla og lagfæra ef athugasemdir koma fram. Í stað þess dæmdu þeir A-listann sjálfkjörinn!

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið algjörlega klikkaðir. Ég hef margreynt að fá upplýsingar um hvernig standa eigi að framlagningu lista, hvaða lög gilda og hvernig maður skuli bera sig að svo að lýðræðið í félaginu fái að ráða. Kannski kannast menn ekki við þetta hugtak, lýðræði, því ég hef ekki fengið neinar upplýsingar heldur var ég rekin úr félaginu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er merkilegt þegar við horfum á kjörstjórnina að þar eru tveir fulltrúar í trúnaðarmannaráði, en það er akkúrat það ráð sem leggur fram A-listann. Og þeir standa keikir með þeirri orðræðu að hér fari vel rökstudd og lýðræðisleg niðurstaða kjörstjórnar. Kjörstjórn, sem tók þátt í að leggja fram annan listann, finnur ekkert að vinnubrögðum sjálfra sín þegar þeir úrskurða sinn eigin lista sjálfkjörinn. Þeir túlka svo lög félagsins í allar áttir svo mögulegt sé að fabúlera á móti B-listanum, sem þeim augljóslega stendur ógn af.

Til að auka enn á hringavitleysuna, þá voru það menn í þessu trúnaðarmannaráði sem lögðu fram tillöguna um að víkja mér úr félaginu, þeir kusu sjálfir um eigin tillögu og ollu með þessari ólöglegu gjörð málarekstri fyrir Félagsdómi um lögmæti aðgerðarinnar. Sá málarekstur er nú í gangi og mun ljúka áður en kosningar ættu að vera yfirstaðnar. Hversu fáránlega samansúrrað getur eitt stéttarfélag verið?

Listanum er hafnað af nokkrum ástæðum og ber þá helst:

  1. Kjörgengi mínu, þar sem ég telst hvorki til félagsmanns né að ég hafi greitt í félagið síðastliðin 3 ár skv. margumræddri3jaára reglu. – Það liggur fyrir að félagsdómur mun úrskurða um kjörgengi mitt svo og þessa 3ja ára reglu. Mér þykir því afar undarlegt að félagið skuli ekki bíða niðurstöðu. Það ætti að vera meira en sjálfsögð krafa að félagið færi amk að landslögum og biði niðurstöðu æðsta valds í málefnum stéttarfélaga á Íslandi. En þessi stjórn telur sig algjörlega yfir það hafin.
  2. Einungis var lagður fram listi til stjórnar en ekki til matsveinadeildar og trúnaðarmannaráðs skv. úrskurði kjörstjórnar. – Ég hef margoft bent á þá staðreynd að það er ekki nokkur leið að sjá út úr lögunum hvernig leggja eigi fram lista þar sem mikið er búið að hræra í þeim og þau samræmast ekki innbyrðis og ekki fundargerðum. Leiðbeiningar af hálfu félagsins voru engar og ekki nokkur leið að fá slíkar leiðbeiningar. Það hefði verið minnsta mál fyrir okkur að leggja fram listamatsveina og trúnaðarmanna.
  3. Gildar undirskriftir voru „einungis“ 99. – B-listinn fékk ekki tækifæri til að laga það sem upp á vantaði, eina undirskrift, eins og alsiða er í verkalýðsfélögum. Við söfnuðum 111 undirskriftum, með okkar eigin, en 3 voru dæmdar ólöglegar. Skv. kjörstjórn skulu frambjóðendur ekki skrifa undir meðmæli með listanum öllum en þó er hvergi minnst á það í lögum félagsins.

Það er ágætt að hafa í huga að frambjóðendur B-listans eru félagsmenn í félaginu, og kjörnefnd á að þjóna þeim eins og fylgismönnum núverandi stjórnar. En okkar undirskriftir voru ekki teknar gildar þrátt fyrir að við séum öll félagsmenn og þeir eru nú allir gildir meðmælendur.

Að öllu leiti hefur verið stórkostlega erfitt að nálgast upplýsingar frá þeim sem halda um völdin í félaginu. Það er alveg á kristaltæru að framkoma og viðbrögð síðustu vikna benda til þess að það sé augljós vilji núverandi stjórnar að það verði enginn, sem ekki er handvalinn í stjórn, sem fái að komast í gögn félagsins.

Við strákarnir erum að vinna með lögfræðingnum okkar að næstu skrefum því ljóst er að ýmislegt er ekki eins og á að vera í úrskurði kjörstjórnar. M.a. er það ekki hlutverk kjörstjórnar að úrskurða um þessa lista samkvæmt lögum félagsins sem sýnir enn einu sinni hve gölluð þau eru, enda held ég að það hafi aldrei áður verið kosið á milli lista í þessu félagi og því kannski ekki undarlegt að þetta vefjist allt saman fyrir mönnum.
Þrátt fyrir að margir sjómenn vilji helst af öllu ganga úr þessu makalausa félagi þá hvet ég þá til að bíða með það.

Markmiðið er enn að almennir félagsmenn fái tækifæri til að fjalla um þessi mál. Það eru almennir félagsmenn sem eru félagið. Við viljum að félagsmennirnir sjálfir fái að velja forystu og marka stefnu félagsins, en núverandi stjórn beitir öllum klækjum og brögðum til að halda ákvörðun um framtíð félagsins frá okkur öllum.

Aðalfundur er ráðgerður skv. venju á milli jóla og nýárs skv. lögmanni félagsins, en leiða má líkur að því að núverandi stjórn boði aðalfund fljótlega.

Það er löngu ljóst að flestir stuðningsmenn B-lista eru fiskimenn og flestir þeirra eru á sjó fram að jólum, einungis 7% af þeim sem skrifuðu undir meðmælalista framboðsins voru í landi.

Með því að boða til aðalfundar meðan flest allir fiskimenn eru á sjó getur stjórn komið í veg fyrir allar lagabreytingar frá öðrum en stjórn. Samkvæmt breyttum lögum þurfa lagabreytingatilllögur að berast 15 dögum fyrir aðalfund (sem stangast á við grein um aðalfund þar sem sagt er að fresturinn sé sjö sólarhringar).
Þrátt fyrir þennan 15 daga frest má stjórn samt boða aðalfund með sjö daga fyrirvara, sem myndi þá girða fyrir allar lagabreytingar. Þetta eitt og sér skýrir kannski allt sem skýra þarf í þessu samhengi og þá algjört og skilyrðislaust einræði stjórnar félagsins.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: