Ósvífin aðgerð Bjarna fjármálaráðherra
Hrafn Magnússon skrifar:
Lífeyrissjóðirnir hafa í áratugi keypt verðtryggð skuldabréf af íslenska ríkinu. Eftir hrun fjármálamarkaðarins haustið 2008 var þá þegar ljóst að Íbúðalánasjóður mundi eiga í erfiðleikum að greiða afborganir, verðbætur og vexti af þeim skuldabréfum sem sjóðurinn hafði gefið út og aðallega selt lífeyrissjóðunum. Nú bregður svo við að fyrst nú virðist fjármálaráðherra gera sér grein fyrir þessum vanda og hótar nú lífeyrissjóðunum að keyra Íbúðalánasjóð í þrot þrátt fyrir ótvíræða ríkisábyrgð af þessum lánveitingum til Íbúðarlánasjóðs. Hér er um afar ósvífna aðgerð að ræða, sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.
Þessi skuld Íbúðarlánasjóðs gufar ekki upp. Hana þarf að greiða hvort sem mönnum líka betur eða verr. Ráðherrann þarf að átta sig á því að það kemur ekki til greina hægt sé að nota ævisparnað fólks með þessum hætti. Nú er nóg komið. Lífeyrissjóðirnir geta ekki gefið þumlung eftir og því á ráðherrann að draga þessa fáránlegu hótun til baka.