Óstjórn í ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar
Stjórnsýsla
Annar hluti leiðara Moggans í dag er með fádæmum. Þar segir frá „valdatöku“ ráðuneytisstjórans. Það er ekki styrkleiki ráðherra að farið sé á bak vip hana. Ekki síst þegar málið er nokkuð alvarlegt. Þórdís K.R. Gylfadóttir setur niður við þetta.
Kíkjum á skrif Davíðs, fyrrverandi utanríkisráðherra:
„Óvenjuleg yfirlýsing utanríkisráðherra á X (Twitter) sl. laugardag um leiðbeinandi álit Alþjóðadómstólsins þar sem Ísrael var sendur tónninn vakti athygli, enda fátítt að stórpólitískar yfirlýsingar í nafni Íslands séu gefnar þar.
Það kann að kalla á frekari skýringar, því utanríkisráðherra fjallar sárasjaldan um niðurstöður Alþjóðadómstólsins á X og aldrei nema þegar Ísraelsríki liggur undir ámæli.“
„Og aldrei nema þegar Ísraelsríki liggur undir ámæli.“ Þýðir þetta að tiplað sé á tánum þegar málefni Ísrael á hlut að máli?
„Hálfu óvenjulegra er þó, að á mánudag staðhæfði upplýsingadeild ráðuneytisins að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefði alls ekki staðið að umræddri yfirlýsingu, heldur hefðu þetta verið „skilaboð“ frá sjálfu ráðuneytinu, eins og það sé eitthvað allt annað.
Hér virðist gæta einhvers stórkostlegs misskilnings um eðli stjórnsýslunnar.“
Ekki er búið að kreista allan safann úr þessu sérstaka máli:
„Ráðuneytið er skrifstofa ráðherra og starfar einvörðungu að fyrirmælum hans. Það hefur enga sjálfstæða stefnu og birtir ekki eigin yfirlýsingar. Að lögum er valdið og ábyrgðin ráðherrans, ekki starfsmanna hans.
Ekki er skárra að upplýsingadeildin hallaði efnislega réttu máli. Þetta voru ekki einhver „skilaboð ráðuneytisins“, heldur var þar beinlínis gefin yfirlýsing um utanríkisstefnuna í nafni Íslands.
Sé það rétt, að yfirlýsingin hafi verið gefin að frumkvæði skrifstofustjóra án atbeina ráðherra, er hún í umboðsleysi og óleyfi, sem verður að hafa tafarlausar afleiðingar.“
Hér er kallað á refsingar. Brottrekstur?
„Utanríkisstefnan er í uppnámi ef nafnlaus embættismaður getur vélað um hana eftir eigin höfði. Slíkar yfirlýsingar hafa merkingu og geta reynst Íslandi afdrifaríkar í hverfulum heimi.
Enginn vafi má leika um völd og ábyrgð í nafni lýðveldisins, síst á alþjóðavettvangi.
Enn einkennilegra var því síðbúin árétting úr ráðuneytinu um að ráðherra bæri ábyrgð á því efni, sem frá því kæmi. Sem þá vekur aðeins spurningu um hver ráði þar í raun,“ segir í leiðara Moggans, sennilega skrifuðum af fyrrverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddssyni.