„Óstjórn ríkir í rekstri borgarinnar og báknið heldur áfram að blása út,“ segir í grein sem Hildur Björnsdottir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skrifar í Moggann í dag.
Auk hennar skrifa Davíð Oddsson og Kjartan Magnússon dauðadómsgreinar í sama blað og um sama efni.
Skoðum grein Hildar betur:
„Borgarbúar hafa fjölmargar ástæður til að vantreysta borgaryfirvöldum – þær ná langt út fyrir tölulegar staðreyndir um fjárhagsstöðu og greiðslugetu. Undanfarna mánuði hafa íbúar til að mynda mótmælt vegna biðlistavanda leikskólanna, viðhaldsvanda skólahúsnæðis og slælegrar vetrarþjónustu.
Á haustdögum var skipaður stýrihópur um endurskoðun þjónustuhandbókar um vetrarþjónustu í Reykjavík. Þegar gerði veðurofsa í borginni í desember hafði hópurinn varla hugsað heila hugsun – engar greiningar, tillögur eða niðurstöður höfðu borist frá hópnum. Þegar nær ófært var í borginni í desember var íbúum sagt að halda ró sinni – stýrihópurinn væri að vinna að endurskoðun þjónustuhandbókar.
Nú, heilum sjö mánuðum eftir skipan stýrihópsins, hefur loks borist niðurstaða. Margvíslegar ágætar tillögur hafa borist frá hópnum – en sumar jafn sjálfsagðar og sú að snjómokstur þurfi að taka mið af snjóþunga hverju sinni.
Reglulega birtast okkur skýr dæmi um seinaganginn í borgarkerfinu og aðgerðaleysi meirihlutans. Það á ekki að þurfa sjö mánaða kaffisamsæti með tilheyrandi skýrslugerð til að hrapa niður á augljósar staðreyndir – og höfuðborg á ekki að þurfa að óttast niðurlægingu í skuldabréfaútboðum.
Borgin er illa rekin, henni er illa stýrt og stjórnkerfið í molum. Á meðan láta meirihlutaflokkarnir sem allt sé í lukkunnar velstandi. Hversu lengi þurfum við að bíða hinna marglofuðu breytinga?“