„Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hælisleitendamálin á sinni könnu um árabil. Hann sýnist skorta nauðsynlega festu og hefur ekki reynst fær um að taka á vandanum. Stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan viðunandi frests og beinn kostnaður við framfærslu hælisleitenda eykst hratt. Á þessu ári kostar hann skattgreiðendur fjóra milljarða og fer ört hækkandi. Þögn ríkir um óbeinan kostnað. Samkvæmt tölum flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna UNRWA er fyrir kostnað af hverjum hælisleitenda sem kemur til Vesturlanda hægt að hjálpa a.m.k. 10-12 manns í heimalandi,“ segir meðal annars í Moggagrein Birgis Þórarinssonar Miðflokki.
„Okkur ber að aðstoða nauðstadda eftir föngum að teknu tilliti til fámennis þjóðarinnar. Koma ber í veg fyrir að móttökukerfi hælisleitenda sé misnotað með röngum upplýsingum og tilhæfulausum umsóknum.
Ísland hefur ekki farið að fordæmi Dana og Norðmanna og auglýst strangt regluverk í útlendingamálum vegna þess að á Íslandi eru útlendingamálin í ólestri m.a. vegna stefnuleysis, ófullnægjandi stjórnsýslu og lagaþrætna á kostnað skattgreiðenda. Á vettvangi stjórnmálanna dugir ekki að hlaupast undan merkjum réttarríkisins af ótta við háværan minnihluta.“