Alþingi „Birgitta Jónsdóttir lýsti því yfir hér áðan að píratar gætu alveg hugsað sér að eyða kvöldinu með háttvirtum þingmanni Jóni Gunnarssyni. Ég vil bara segja alveg skýrt fyrir mína hönd að ég er ekki til í að vera í því partíi,“ sagði Össur Skarphéðinsson á Alþingií gær.
„Hins vegar get ég vel hugsað mér að vera hér langt fram á kvöld og þess vegna svo langt inn í nóttina að sól roði glugga Alþingishússins, sem hverjum ungum þingmanni er hollt að upplifa, til að fjalla um alvörumál. Ég vil vera lengi hér til að fjalla til dæmis um verkfall opinberra starfsmanna sem hæstv. fjármálaráðherra gerir ekkert til að leysa. Ég vil gjarnan vera hér til að ræða verkföllin sem fram undan eru á almennum kjararmarkaði sem hæstv. forsætisráðherra gerir ekkert til að leysa. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum, ef þörf krefur, að vera hér nótt og dag til að ræða alvörumálin en ekki það mál sem hér er búið að knýja á dagskrá með ólögum, segi ég.“