- Advertisement -

Össur hreifst af Framsókn

„Ég hreifst ungur af rökum Framsóknarflokksins gegn matarskattinum og hef hvorugu gleymt síðan. Þess vegna urðu það mér töluverð vonbrigði þegar ráðherrar Framsóknarflokksins létu beygja sig við ríkisstjórnarborðið og samþykktu að leggja til við þingið að hækka matarskattinn. Það var mér undrunarefni, ekki síst í ljósi þess að hæstvirtur forsætisráðherra hafði ekki fyrir svo mjög löngu síðan sagt að það væri margsannað að hækkun matarskattsins kæmi verst við þá tekjulægstu,“ sagði Össur Skarphéðinsson á Alþingi í gær. Hann bætti við:„Sem betur fer reis þingflokkur Framsóknarflokksins upp, að því er virtist sem einn maður, og kom vitinu fyrir þá. Menn úr þingflokknum komu fram og sögðu algjörlega skýrt að þeir hefðu gert fyrirvara við matarskattinn. Síðan hefur það komið fram í þessum sölum að bara eins konar almennur fyrirvari hafi verið gerður.“

Hver er fyrirvarinn?
„Þess vegna langar mig til að Sigrúnu Magnúsdóttur: Hver er fyrirvari Framsóknarflokksins við þetta frumvarp sem ég nefndi? Er það fyrirvari við matarskattinn eða ekki? Ætlar Framsóknarflokkurinn að heykjast aftur og gleyma því að berjast fyrir bændur og neytendur í þessu máli? Ég hef tekið eftir því að háttvirtir þingmenn Framsóknarflokksins hafa verið tíndir einn af öðrum út undir vegg og þeim sagt hvernig þeir eigi að haga sér. Sumir hafa staðið uppréttir eins og vaskir menn, eins og Karl Garðarsson. Það urðu mér mikil vonbrigði þegar ég sá að Vigdís Hauksdóttir, sem hafði lýst skýrum fyrirvara við matarskattinn, hafði skipt um skoðun. Það kom mér verulega á óvart, en blessuð sé minning að minnsta kosti þess skeiðs í hennar pólitíska lífi.“
Og að lokum sagði Össur:„Hins vegar var Sigrún Magnúsdóttir, hæstvirtur þingflokksformaður Framsóknarflokksins, algjörlega skýr. Hún lagðist opinberlega gegn því 21. ágúst að matarskatturinn yrði hækkaður. Hún sagði að hann kæmi náttúrulega mest við þá sem minnst mættu sín.Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé enn þá sömu skoðunar. Hver er fyrirvari Framsóknarflokksins? Ætlar Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) að láta beygja sig í þessu máli?

Höfum þrjá mánuði
„Fjárlagafrumvarp er veigamesta frumvarpið sem lagt er fram á Alþingi. Oft hefur tekjuhlið þess ekki verið lögð fram fyrr en síðla nóvember. Núna höfum við tæpa þrjá mánuði til skoðunar á frumvarpinu. Við Framsóknarmenn munum sannarlega standa vörð um hag heimilanna. Á það getur þingmaðurinn stólað,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir meðal annars í svari sínu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: